Vefmyndavél bæjarins streymir enn á ný
Ný vefmyndavél Akureyrarbæjar hefur verið tekin í notkun og er aðgengileg á heimasíðum bæjarins, Akureyri.is og Halloakureyri.is. Myndavélin er í Rósenborg, húsinu sem á árum áður kallaðist Barnaskóli Akureyrar, og þaðan sést yfir miðbæinn og Eyrina, og út Eyjafjörð þar sem fjallið Kaldbakur blasir við í fjarska í allri sinni dýrð.
„Gamla vélin var komin mjög til ára sinna en ný vél hefur verið sett upp með streymi í gegnum Youtube og því gæti fólk þurft að hreinsa út bókamerki ef það hefur vistað slóð vélarinnar niður í tölvuna hjá sér,“ segir á vef Akureyrarbæjar.
„Vitað er að fjölmargir unnendur Akureyrar, til að mynda brottfluttir og útlendingar sem hafa á bænum miklar mætur, fylgjast grannt með fallega bænum okkar, veðri og vindum, í gegnum vefmyndavélina því kvartanir berast óðara ef streymið dettur niður.“
Nýja vélin mun vonandi þjóna hlutverki sínu vel og lengi, segir á vef bæjarins, en sem áður segir er hægt að komast inn á hana í gegnum hnapp efst hægra megin á Akureyri.is og einnig á Halloakureyri.is.