Fara í efni
Fréttir

Veðurstofan varar við mikilli rigningu

Gul viðvörun hefur verið gefin út vegna veðurs á Norðurlandi eystra frá því klukkan þrjú í nótt þar til annað kvöld, miðvikudagskvöld. Viðvörunin á einnig við um Strandir og Norðurland vestra.

Spáð er talsverðri eða mikilli rigningu, eins og það er orðað á vef Veðurstofu Íslands. „Búast má við vexti í ám og lækjum og geta vatnsföll farið staðbundið yfir bakka sína. Auknar líkur á grjóthruni og skriðuföllum. Þeim sem hyggja á útivist er bent á hættu á kælingu og vosbúð vegna rigningar, strekkings norðanáttar og lágs lofthita,“ segir á vef stofnunarinnar.