Veðurblíða í Eyjafirðinum
Veðrið lék við Akureyringa í dag og orðatiltækið að skjótt skipist veður í lofti á sannarlega við í höfuðstað Norðurlands nú. Fyrir fáeinum dögum snjóaði á kjósendur og frambjóðendur en nú sleiktu þeir allir sólina þótt sennilega séu ekki allir í sólsskinsskapi að kosningum loknum.
Um miðjan dag var hátt í 20 stiga hiti, sólskin og logn. Mælirinn á Ráðhústorgi – stundum kallaður Lygamælirinn – sýndi mest 19 gráður og enginn rengir líklega hans mat að þessu sinni.
Þýska skemmtiferðaskipið MS Deutschland lá við Oddeyrarbryggju í dag og farþegar spókuðu sig í bænum. Skipið tekur rúmlega 500 farþega. Bent var á það í Morgunblaðinu á dögunum að aðdáendur þýskra sápuópera gætu kannast við skipið en sjónvarpsserían Das Traumschiff, eða Draumaskipið, var lengi vel tekin upp um borð í því.