Veður að versna – Öxnadalsheiði lokað
Veður er að versna á Akureyri og nágrenni og Vegagerðin tilkynnti klukkan 16.32 að verið væri að undirbúa lokun vegarins yfir Öxnadalsheiði.
Síðustu daga hefur verið blíða í Eyjafirði en mjög vont veður víða annars staðar. Töluvert snjóaði fyrir sunnan og í Reykjavík og næsta nágrenni hefur ófærð valdið miklum vandræðum síðustu sólarhringa.
Í kvöld er spáð 15 til 20 metra vindi á sekúndu á Norðausturlandi og snjókomu og skafrenningi og versnandi akstursskilyrðum.
Gefin hefur verið út gul viðvörun fyrir allt landið á morgun; hún á við um Norðausturland frá því laust fyrir hádegi og til um það bil klukkan 19.00 annað kvöld. Þá er spáð allt að 20 metra vindi á sekúndu og snjókomu um tíma eftir hádegi. Draga á úr vindi annað kvöld. Frost verður frá 0 til 8 stig á Norðurlandi eystra.
- Hvað þýðir gul viðvörun?
- Hún er útskyrð svona á vef Veðurstofunnar: Veðrið getur haft nokkur eða staðbundin áhrif og valdið töfum, slysum eða tjóni ef aðgát er ekki höfð. Slík veður eru ekki óalgeng en krefjast árvekni við skipulagningu atburða og í ferðum á milli landshluta eða á hálendinu. Óveruleg áhrif á samgöngur á landi, innviði og þjónustu.
Vegir á Norðurlandi
Staðan á vegum á Norðurlandi eystra er þessi þetta er skrifað klukkan 16.45:
Snjóþekja er í Húnavatnssýslu. Þæfingur er á Siglufjarðarvegi en hálka, skafrenningur og éljagangur er mjög víða og hvasst.
Verið er að undirbúa lokun á veginum um Öxnadalsheiði vegna veðurs.
Hálka og skafrenningur er víða. Þæfingur er á Hófaskarði, Hálsum, Hróarstunguvegi og Vatnsskarði eystra, eitthvað er um snjóþekju og skafrenning. Ófært er á Dettifossvegi.
Vegurinn um Möðrudalsöræfi er lokaður vegna veðurs. Hverfandi líkur eru á því að hann verði opnaður í dag.
Vegurinn um Mývatnsöræfi er lokaður vegna veðurs. Hverfandi líkur eru á því að hann verði opnaður í dag.
Vegurinn um Vopnafjarðarheiði er lokaður vegna veðurs. Hverfandi líkur eru á því að hann verði opnaður í dag.