Fara í efni
Fréttir

Vaxandi þörf á stuðningi við ungmenni

Í Bjarmahlíð á Akureyri, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi, hefur orðið vart við vaxandi þörf á stuðningi við ungmenni á framhaldsskólaaldri – frá 16 ára. Flest ungmenni á aldrinum 16-18 ára eru í framhaldsskóla og hefur Bjarmahlíð nú gert samkomulag um þróun samstarfs við alla framhaldsskólana á Norðurlandi. Skólarnir eru Framhaldsskólinn á Húsavík, Framhaldsskólinn á Laugum, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Tröllaskaga, Verkmenntaskólinn á Akureyri og Fjölbrautarskóli Norðurlands vestra.

Samkomulagið felur í sér fræðslu til skólanna og stuðning við fagaðila innan skólanna eftir þörfum, og beint samtal við nemendur í gegnum nemendafélög skólanna. „Með beinu samtali við nemendur mun Bjarmahlíð markvisst leitast við að sníða þjónustu sína við þolendur á framhaldsskólaaldri að þeirra þörfum þegar kemur að ofbeldisforvörnum og úrræðum,“ segir í tilkynningu frá Bjarmahlíð.

„Leiðarstef í allri vinnu Bjarmahlíðar með ungmennum er að styðja við merkingarbæra þátttöku þeirra en að huga jafnframt að vernd þeirra. Þar liggja til grundvallar grunngreinar Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Samkomulagið við skólana gildir út þetta skólaár (til vors 2023) og verður þá endurmetið.“

Viðbrögð – úrræði – eftirfylgni

„Þjónustuaukningin við 16-18 ára í Bjarmahlíð felur sér að boðið er upp á viðtöl þar sem samþætt eru viðbrögð, úrræði, leiðir til valdeflingar og eftirfylgd eftir að ofbeldi hefur átt sér stað. Slík þjónustuaukning er ekki gerð nema í þéttu samtali og samstarfi við aðila innan hefðbundins skóla- og frístundastarfs, stuðningskerfa félags- og barnaverndar og lögregluna. Bjarmahlíð mætir ungmennunum með áfallamiðaðri nálgun sem felur sér valdeflingu og eflingu áfallaseiglu, sem um leið geta orðið verndandi aðgerðir gegn ofbeldi síðar á lífsleiðinni.“

Hægt er að panta tíma í gegnum heimasíðu Bjarmahlíðar: bjarmahlid.is og með því að senda póst á bjarmahlid@bjarmahlid.is. Boðið er upp á stað- og fjarviðtöl.

_ _ _

  • Bjarmahlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi, hóf starfsemi vorið 2019 og hafa yfir 400 manns 18 ára og eldri fengið þjónustu þar. Bjarmahlíð hefur bakland hjá þeim fjölmörgu samstarfsaðilum sem koma að starfinu og er þannig tengiliður við opinberar stofnanir, félagssamtök og bjargráð innan þeirra þegar kemur að afleiðingum og úrvinnslu ofbeldis. Þjónusta Bjarmahlíðar er þolendum að kostnaðarlausu og rekin í anda hugmyndafræði Family Justice center.