Fara í efni
Fréttir

Varasamt ferðaveður á svæðinu í kvöld

Gular veðurviðvaranir taka gildi á mörgum spásvæðum Veðurstofu Íslands á mismunandi tímum frá því í dag og gram á jóladagsmorgun. Skjáskot af vedur.is.

Gera má ráð fyrir hvassviðri, vaxandi suðaustanátt, 15-23 metrum á sekúndu og slyddu eða snjókomu um tíma núna með morgninum á Norðurlandi eystra, samkvæmt veðurspá Veðurstofu Íslands frá því í gærkvöld. Hægari sunnanátt verður komin um hádegi með þurru veðri og hita á bilinu tvö til sjö stig. Seint í kvöld hvessir úr suðvestri og vindur á bilinu 15-23 m/sek. í kvöld. 

Gul veðurviðvörun tekur gildi í kvöld kl. 19 (Þorláksmessu) og stendur fram yfir miðnættið þar sem gert er ráð fyrir suðvestan vindi, 15-23 m/sek. Hvassast verður vestantil á svæðinu með vindhviðum að 35-40 m/sek. á Tröllaskaga og við Eyjavjörð. Varasamt ferðaveður.

Gular veðurviðvaranir eru reyndar í kortunum fyrir meirihluta landsins á mismunandi tímum frá því í dag og fram á jóladagsmorgun, eins og sjá má á myndinni með fréttinni og fólk því hvatt til að skoða veðurspá og færð áður en haldið er í ferðalög.

Veðurspá frá því í morgun fyrir allt landið: 

Suðaustan stormur með slyddu eða snjókomu.

Snýst í suðvestan 10-18 m/sek. fyrripartinn í dag með skúrum, fyrst á suðvesturhorninu. Hiti 2 til 7 stig.
Hvessir síðdegis, suðvestan 13-23 undir kvöld, hvassast á Norðurlandi og Vestfjörðum. Slydduél eða él á vesturhelmingi landsins og kólnandi veður.

Sunnan 8-15 m/sek. á morgun og slydda eða snjókoma, en þurrt á norðaustanverðu landinu. Hiti kringum frostmark. Hvessir síðdegis, suðvestan 15-25 m/sek. annað kvöld, hvassast suðvestantil á landinu. Víða dimm él, en áfram þurrt norðaustanlands. Kólnandi veður.

Veðurhorfur fyrir næstu daga, samkvæmt spá sem gerð var að kvöldi 22. desember

Á þriðjudag (aðfangadagur jóla)
Sunnan 8-15 m/sek. og slydda eða snjókoma, en þurrt á norðaustanverðu landinu. Hiti kringum frostmark. Hvessir síðdegis, suðvestan 15-23 m/sek. um kvöldið, hvassast suðvestantil á landinu. Víða éljagangur, en áfram þurrt norðaustanlands. Kólnandi veður.

Á miðvikudag (jóladagur)
Suðvestan 15-23 m/sek. með dimmum éljum, en bjartviðri á Austurlandi. Frost 1 til 6 stig.

Á fimmtudag (annar í jólum)
Suðvestan og sunnan 10-18 m/sek. og snjókoma eða slydda með köflum, en þurrt á norðaustanverðu landinu. Hiti um og undir frostmarki.

Á föstudag
Suðvestlæg eða breytileg átt og snjókoma með köflum, en úrkomulítið austanlands. Frost 1 til 6 stig.

Á laugardag og sunnudag
Útlit fyrir norðlæga átt. Snjókoma eða él á norðanverðu landinu, en bjartviðri sunnantil. Frost 3 til 12 stig.