Fara í efni
Fréttir

Vanhæfið: ábyrgðin er allra bæjarráðsmanna

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrar, og Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar, segja bæjarráðsmenn ekki hafa talið Hildu Jönu Gísladóttur, bæjarfulltrúa, vanhæfa við afgreiðslu uppbyggingarsamnings við KA í bæjarráði 16. desember í ljósi þeirrar skoðunar bæjarlögmanns að hún teldist ekki vanhæf. Síðar hafi komið í ljós að sú niðurstaða var ekki rétt og á því beri allir bæjarráðsmenn ábyrgð. Þetta kemur í grein þeirra sem birtist á Akureyri.net í dag.

„Svo virðist sem sumir fréttamiðlar vilji beina kastljósinu að bæjarfulltrúa Hildu Jönu og gera störf hennar tortryggileg. Því er til að svara að hún vakti á öllum stigum málsins athygli á mögulegu vanhæfi sínu en hins vegar var það mat bæjarráðsmanna, sem byggði á skoðun bæjarlögmanns, að svo væri ekki,“ skrifa þau. Rétt er að nefna að það var rækilega tekið fram í frétt Akureyri.net, sem fjallaði fyrst um málið.

Smellið hér til að lesa grein Guðmundar Baldvins og Höllu Bjarkar

Smellið hér til að lesa frétt Akureyri.net um málið