Fara í efni
Fréttir

Valur hyggst hætta, Jón hugsar sinn gang

Yfirlæknarnir Jón Torfi Halldórsson, til vinstri, og Valur Helgi Kristinsson. Sunnuhlíð í bakgrunni, þar sem ný heilsugæslustöð verður opnuð í byrjun næsta árs.

Annar þeirra yfirlækna Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri sem sagt hefur verið upp vegna skipulagsbreytinga og boðið að starfa áfram sem heimilislæknar hyggst hvorki taka því boði né sækja um stöðu yfirlæknis sem auglýst hefur verið á nýrri stöð í Sunnuhlíð frá og með áramótum. Hinn kveðst vera að hugsa sinn gang varðandi hvort tveggja.

Akureyri.net sagði frá því í morgun að báðum yfirlæknum Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri hafi verið sagt upp störfum því ákveðið hafi verið að frá áramótum, þegar stöðin flytur á nýjan stað, verði aðeins einn yfirlæknir.

Mikill óróleiki og óvissa

Valur Helgi Kristinsson, annar núverandi yfirlækna, staðfestir að hann muni vinna sinn uppsagnarfrest til áramóta, en sækist ekki eftir endurráðningu. Traust mitt á framkvæmdastjórn HSN er of lítið til að ég geti hugsað mér það,segir Valur Helgi. Hann segir mikinn óróleika og óvissu ríkja á heilsugæslunni í tengslum við þessa ákvörðun sem virðist illa ígrunduð og enn verr útfærð, án nokkurs samráðs við millistjórnendur né almennt starfsfólk. Ákvörðunin komi að auki á afleitum tíma, eins og hann orðar það í svari við fyrirspurn frá Akureyri.net.

„Ég er að hugsa minn gang og hef ekki ákveðið hvað ég geri,“ segir hinn yfirlæknirinn, Jón Torfi Halldórsson. Þar vísar hann bæði til starfs sem heimilislæknir og umsóknar um stöðu yfirlæknis. Hann segist munu vinna uppsagnarfrestinn til áramóta.

Velta fyrir sér einkunnarorðunum

  • Læknaráð HSN á Akureyri hefur fordæmt vinnubrögð og ákvarðanatöku framkvæmdastjórnar HSN vegna uppsagna Jóns Torfa og Vals, eins og Akureyri.net greindi frá fyrr í dag. Læknaráðið hvetur til að ákvörðunin verði dregin til baka að öllu leyti. Smellið hér til að sjá þá frétt.

„Ályktun læknaráðs er ekki á mínum vegum,“ segir Jón Torfi, en þar komi greinilega fram hugur samstarfsfólks þeirra Vals, og bætir við að margir starfsmenn hafi í það minnsta velt fyrir sér einkunnarorðum stofnunarinnar – fagmennska, samvinna og virðing – og „fyrir hvað þau standa.“