Fara í efni
Fréttir

Útrýming sjóbleikjunnar í Eyjafirði í boði Kleifa fiskeldis

Nú á haustmánuðum eru komin fram áform Kleifa fiskeldis í Fjallabyggð um stórfellt laxeldi í opnum sjókvíum í Eyjafirði, a.m.k. um 20.000 tonna lífmassa á ákveðnum stigum eldisins.

Athygli vekur að Kleifar fiskeldi hafa reynt að bera fé á sveitarstjórnir við Eyjafjörð í formi hlutabréfa í félaginu til að reyna að hafa áhrif á afstöðu sveitarstjórna til málsins. Sú ráðstöfun er í besta falli ósmekkleg og líklega ólögleg ef horft er til sveitarstjórnarlaga. Bréfritarar láta lesendum/kjósendum eftir að nefna slíkan gjörning réttum nöfnum.

Hafró leggst gegn eldinu

Samkvæmt frumvarpi um lagareldi sem liggur fyrir Alþingi er Eyjafjörður og Öxarfjörður friðaður fyrir öllu sjókvíaeldi ásamt fjörðum og flóum sem hlutu vernd samkvæmt reglugerð ráðherra 2004. Þetta eru Faxaflói, Breiðafjörður, Húnaflói, Skagafjörður, Skjálfandi, Þistilfjörður, Bakkafjörður, Vopnafjörður og Héraðsflói. Við það að frumvarpið verði samþykkt yrði til heilstætt friðunar- og verndarsvæði fyrir öllu Norðurlandi og norðanverðum Austfjörðum, laxa og silungastofnum á svæðinu til verndar.

Fyrir liggur álitsgerð frá Hafrannsóknarstofnun (Hafró) frá 2020 til þáverandi ráðherra málaflokksins, þess efnis að Hafró leggist gegn öllu sjókvíaeldi á laxi í opnum sjókvíum í Eyjafirði.

Áform Kleifa eru því augljóslega í freklegri andstöðu við vísindasvið Hafró og ráðherra málflokksins þannig að aldrei getur orðið að slíkum áformum.

Kleifar hafa gefið það út að þeir ætli að nota svokallaðan geldfisk, þ.e. þrílitna lax í sínu eldi og á þann hátt verði komið í veg fyrir erfðablöndun laxastofna á svæðinu vegna strokulaxa.

Ummæli Jens Garðars

Á fundi hjá Sjálfstæðisflokknum á Akureyri lét Jens Garðar Helgason, oddviti Sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi og laxeldisfrömuður frá Austfjörðum, þau orð falla að þrílitna lax í eldi sé ekki til á eldisskala og sé í besta falli áhættusamur eða jafnvel ónothæfur. Auk þess sé mikið um vanskapaðan fisk, mikil afföll í eldinu, minni vaxtarhraði og minna þol í umhverfinu vegna náttúrulegs álags og laxalúsar.

Spurning er hvort Kleifar fiskeldi ætli að taka slíka áhættu eða eru áformin þau að sækja um tilraunaleyfi í Eyjafirði án endurgjalds (útboða í leyfin). Og síðan sækja um breytingu í frjóan lax þegar ljóst yrði að farið var af stað með vonlausa hugmynd, sem allir vissu að gengi ekki upp. Þá væru slíkir fjárhagslegir hagsmunir undir að stjórnkerfið gæfi eftir og veitti slíkt leyfi. Gengi þetta eftir yrði frjór norskur lax kominn í Eyjafjörð og fyrir öllu Norðurlandi.

Heimkynni og nauðvarnarsvæði sjóbleikjunnar

Eyjafjörður er heimkynni og nauðvarnarsvæði íslensku sjóbleikjunnar (30-40% stofns sjóbleikju), sem nú á undir högg að sækja af náttúrulegum ástæðum þar sem stofnar sjóbleikjunnar hafa dregist mjög saman. Víða við Eyjafjörð hafa veiðifélög og leigutakar
bannað að drepa bleikju og er því allri bleikju sleppt.

Þó svo að eldisáform eldisfyrirtækja um notkun á geldlaxi gengju eftir þá er laxalús í eldinu mesta hættan fyrir bleikjustofna Eyjafjarðar. Íslenska sjóbleikjan gengur úr sinni heima á að vori í sjó innfjarðar í fæðuöflun til að ná að mynda hrogn og svil og gengur síðan í sína
heimaá við fjörðinn til hrygningar til viðhalds stofninum.

Stofnar aldauða á örfáum árum

Ef Eyjafjörður væri girtur með laxeldiskvíum með tilheyrandi faröldrum af laxalús, sem er raunin á Vestfjörðum, og bleikja, sjóbirtingur og gönguseiði laxa færu um eldissvæðin og dveldu við kvíasvæðin smitaðist lúsin á þá fiska þannig að gríðarleg afföll yrðu á bæði silungastofnum og gönguseiðum laxa. Ætla má að á örfáum árum yrðu þessir stofnar nánast aldauða í Eyjafirði. Ætlum við Eyfirðingar og nærsveitamenn að sætta okkur við það?

Nefna má að í slíkum faröldrum er beitt lúsaeiturslyfjum sem eru mjög skaðleg öllu náttúrulegu vistkerfi á svæðinu, svo sem rækju, krabbadýrum, marfló, rauðátu og ljósátu, sem eru undirstöðu tegundir okkar nytjastofna. Í Eyjafirði eru gríðarlega mikilvæg uppeldissvæði margra okkar nytjastofna sem engan veginn má leggja í hættu.

Hafa ber í huga að þeir stofnar sem við eyðum koma aldrei aftur, samanber Geirfuglinn. Áður fyrr voru menn að veiða sér til matar og afla nauðþurfta. Í dag eru sjónarmið eldisins einungis fjármuna og hagnaðarlegs eðlis á kostnað náttúrunnar.

Mjög neikvæð áhrif

Ef horft er til lífrænnar mengunar frá eldinu er mengun frá 20.000 tonna eldi í Eyjafirði nálægt því að vera eins og frá 320.000 manna byggð, samkvæmt norsku umhverfisstofnuninni. Fyrir liggur burðarþolsmat og áhættumat í fiskeldinu hér á landi upp á 106.000 tonna eldi. Frá eldinu kæmi fimmfalt það magn úrgangs sem kemur frá allri þjóðinni. Á borði ráðherra umhverfismála liggur krafa ESB í frárennslismálum
sveitarfélaga sem mundi kosta sveitarfélög á Íslandi 159 milljarða fram til 2035-45. Að framansögðu er ljóst að laxeldið er alveg tekið út fyrir sviga í mengunarmálum, því „lengi tekur sjórinn við“ eins og sagt var hér áður fyrr.

Einnig ber að geta neikvæðra áhrifa laxeldis á ferðaþjónustufyrirtæki og smábátaeigendur við fjörðinn. Bæði er um að ræða neikvæð sjónræn áhrif og hömlur á athafnasvæði þeirra fyrirtækja sem byggja afkomu sína í Eyjafirði.

Átakanlegt

Ef til sjókvíaeldis kemur í Eyjafirði verður til svokallað smitvarnarsvæði í firðinum þannig að öll umferð búnaðar og tækja frá öðrum svæðum yrði bönnuð. Slippurinn á Akureyri hefur þjónustað brunnbáta Kaldvíkur hf á Austfjörðum fram að þessu. Slippurinn verður af öllum þjónustutekjum við þessa báta þar sem för þeirra um eldissvæði í Eyjafirði væri þá óheimil.

Samkvæmt núgildandi lögum frá 2019 um málaflokkinn skulu öll ný eldisleyfi, að undangengnu burðarþols og áhættumati Hafró, boðin út af hálfu hins opinbera. Þeir aðilar sem hæst tilboð gefa geta síðan farið í formlegt ferli ef fallist er á þeirra tilboð.

Í þessu sambandi má nefna að í október 2020 buðu norsk stjórnvöld út 25.000 tonna eldisleyfi fyrir 53 milljarða króna (Heimildin 2020). Verðbil var 1,7 -3,4 milljarðar per 1.000 tonn. Meðalverð var um 3 milljarðar per 1000 tonn (Viðskipablaðið 2020).

Nú liggur fyrir burðarþolsmat og áhættumat frá Hafró, fyrir þau svæði sem tekin hafa verið undir sjókvíaeldi, uppá 106.400 tonna eldi, sem á norskum markaði mundi kosta leyfishafa laxeldis 200-300 milljarða króna. Hér á landi hefur aldrei verið greitt fyrir eldisleyfin.

Nýlega var frumsýnd heimildarmyndin, Árnar þagna, hér á Akureyri. Myndin fjallar um áhrif áratuga laxeldis í Noregi. Þar kemur fram að í júní á þessu ári lokaði norska umhverfisstofnunin 33 laxveiðiám í Noregi vegna hörmulegrar stöðu villtu norsku laxastofnanna, sem eru taldir í algjörri útrýmingarhættu. Myndin lýsir á átakanlegan hátt áhrifum bannsins og hruns laxatofna á nærsamfélög við árnar. Algerlega er kippt fótunum undan lifibrauði fólksins sem byggir sína lífsafkomu að stórum hluta á vinnu og hlunnindum af ánum. Um er að ræða  sveitasamfélög eins og hér á landi sem treysta mjög á þjónustu og hlunnindi við lax og silungsveiðiár Íslands.

Telja sig ekki geta stutt friðun Eyjafjarðar

Eftir sýningu myndarinnar var frambjóðendum stjórnmálaflokka til Alþingis í Norðausturkjördæmi boðið til umræðna, og fóru þær vel fram. Þegar frambjóðendur voru spurðir út í lagareldisfrumvarpið og friðun Eyjafjarðar og Öxafjarðar var niðurstaðan sú að frambjóðendur Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Flokks fólksins töldu sig og sinn flokk ekki geta stutt friðun Eyjafjarðar og hljóta því að beita sér í því að draga Eyjafjörð og Öxafjörð út úr frumvarpinu. Þessir frambjóðendur sjá fyrir sér stórfellt sjókvíaeldi í Eyjafirði í framtíðinni. Fulltrúar Vinstri grænna, Pírata, Sósíalista, Framsóknar og Viðreisnar sögðust persónulega styðja við friðun Eyjafjarðar og Öxafjarðar. Miðflokksmenn mættu ekki.

Þessi niðurstaða hlýtur að vekja okkur kjósendur til umhugsunar þegar við göngum inn í kjörklefann fyrir næstu Alþingiskosningar.

Bessi Skírnisson og Sigmundur E. Ófeigsson eru í áhugahópi um verndum Eyjafjarðar gegn sjókvíaeldi á laxi og skrifa greinina fyrir hönd hópsins