Uppfylla ekki nútíma kröfur en mjög dýrt að bæta úr
Forsvarsmenn Vegagerðarinnar segja klæðningu í Múla- og Strákagöngum í Fjallabyggð ekki uppfylla kröfur sem gerðar eru til nýrra ganga en mjög kostnaðarsamt sé að bæta úr. Það verði ekki hægt nema til komi sérstakar fjárveitingar.
Ámundi Gunnarsson, slökkviliðsstjóri í Fjallabyggð, sagði hér á Akureyri.net á laugardaginn að ástand öryggismála í Ólafsfjarðargöngum – Múlagöngum – væru algjör martröð og göngin væru ekkert annað en dauðagildra. Benti hann sérstaklega á klæðningu í göngunum sem væri ólögleg og mjög eldfim. Bar hann Vegagerðinni illa söguna.
G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir það ekki rétt sem slökkviliðsstjórinn haldi fram að Vegagerðin hafi ekki brugðist við ábendingum og vísar til bréfs frá stofnuninni til slökkviliðsstjórans frá því í september á síðasta ári.
Reglur gilda ekki fortakslaust
Í bréfinu, sem G. Pétur nefnir, segir meðal annars að öll göng á Tröllaskaga hafi verið byggð með hliðsjón af gildandi norskum staðli á þeim tíma sem þau voru á hönnunarstigi en ekki sé miðað við að staðlarnir gildi afturvirkt. Strákagöng voru tekin í notkun 1967 og Múlagöng 1990.
Fram kemur í bréfinu að reglugerð um öryggiskröfur gildi ekki fortakslaust um göng á Tröllaskaga þar sem þau séu ekki hluti samevrópska vegakerfisins.
„Ýmsar þær ábendingar sem fram koma í bréfi slökkviliðsstjóra fela í sér umtalsverðan kostnað ef bæta ætti úr með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í gildandi stöðlum. Fyrir liggur að til þess að uppfæra búnað umræddra ganga þarf umtalsverðar fjárveitingar sem ekki eru fyrir hendi.
Það er í ýmsum atriðum mikill munur á búnaði þessara ganga og nýrra ganga og eðlilegt að áhugi sé að gera á þeim endurbætur þó að ekki liggi ljóst fyrir að lagaleg skylda sé til þess. Vegagerðin telur æskilegt að aðilar komi sér saman um forgangsröð æskilegra endurbóta. Þá ætti að verða léttara að fá fjármagn til endurbótanna og jafnframt að undirbúa einstök verkefni,“ segir í bréfinu.
Brunahætta og klæðning mikið skemmd
Tekið er fram að í Héðinsfjarðargöngum (2010) sé yfirsteypt klæðning sem standist nútímakröfur en sú sé ekki raunin með hin göngin, Stráka- og Múlagöng. Kröfur um að slík klæðning væri ekki óvarin í göngum hafi komið fram eftir 1990. Nefnt er að í göngum undir Breiðdals- og Botnsheiði, sem opnuð voru 1996, sé lítill hluti klæðningar varinn með sprautusteypu eftir samráð við Brunamálastofnun.
Síðan segir:
„Hvernig sem sagan er viljum við ekki hafa þessa klæðningu nú til dags. Af þessum göngum er talið mikilvægast að skoða ástand Múlaganga og er spurning hvaða lausnir kunna að vera tækar og raunhæfar til úrbóta. Hér eru reifaðar tvær leiðir.
a) Fyrir utan brunahættu, er núverandi klæðning léleg mikið skemmd og lekur víða auk leka þar sem ekki er klæðning. Ekki er hægt að sprauta yfir núverandi klæðningu nema endurbæta hana verulega eða skipta um hana og auka um leið. Ný klæðning og þá á mun meira svæði en nú er klætt og sprautusteypa á hana má giska á að geti kostað 1 til 1,5 milljarð, en gera þarf áætlun. Þessi klæðning mun líka skemmast af ákeyrslum og er erfiðari í viðgerð en klæðning án sprautusteypu. Skoða verður einnig hvort slík aðgerð sé forsvaranleg með tilliti til kostnaðar í ljósi afkastagetu ganganna og mögulegra framtíðarúrbóta, s.s. breikkunar ganganna. Ljóst er að ef verja þarf fjármagni í nýja klæðningu kynni það að hafa áhrif á mögulegar úrbætur aðrar í framtíðinni.
b) Önnur stefna væri að ef hægt er að finna dúk og festingar fyrir hann sem gæti hentað til að setja upp í áföngum, bæði til viðbótar núverandi klæðningu og til að endurnýja verstu svæðin á núverandi klæðningu smám saman. Skumklæðning myndi ekki aukast en minnka smám saman. Þessi leið er nú í athugun.“