Ungmenni Norðurlanda til Akureyrar í júní
Í tengslum við vinabæjasamband Akureyrar við Álasund í Noregi, Randers í Danmörku, Västerås í Svíþjóð og Lahti í Finnlandi og ungmennaverkefnið NOVU er von á ungmennum á aldrinum 16-20 ára til Akureyrar í lok júní. Þá verður unnið út frá því hvort menning geti fært okkur nær hvert öðru með raddir ungs fólks í huga, að því er fram kemur í frétt á vef Akureyrarbæjar.
Heimir Örn Árnason, forseti bæjarstjórnar Akureyrar, og Halla Björk Reynisdóttir, formaður bæjarráðs, tóku í liðinni viku þátt í vinabæjamóti áðurnefndra bæja sem fram fór í Álasundi og hittu þar kjörna fulltrúa og bæjar- og borgarstjóra vinabæjanna. „Tilgangurinn með heimsóknum á borð við þessa er að deila reynslu, ræða helstu áskoranir sem sveitarfélög standa frammi fyrir og læra hvert af öðru,“ segir í fréttinni á Akureyri.is. Dagskráin í heimsókn Heimis og Höllu var fjölbreytt, farið var í heimsóknir í merk fyrirtæki og stofnanir, auk þess sem rætt var um margs konar málefni, alveg frá skipulagsmálum, sameiningu sveitarfélaga og ferðaþjónustu yfir í varnamál í ljósi innrásar Rússa í Úkraínu.
Einn liður í vinabæjasamstarfinu snýst um samskipti ungmenna (NOVU) og koma ungmenna til Akureyrar í lok júní tengist því verkefni.