Fara í efni
Fréttir

Undirbúa stofnun sjóminjasafns

Kaldbakur EA 1. Líkanið er í eigu Sjóminjasafns Reykjavíkur, sem nú er hluti Borgarsögusafns. Lánssamningur um líkanið var útrunninn, en fengist hefur samþykki Borgarsögusafnsins fyrir því að líkanið verði áfram á Akureyri. Mynd af Facebook-síðu Iðnaðarsafnsins.

Um liðna helgi birtist tilkynning á Facebook-síðu Iðnaðarsafnsins þar sem sagt var frá því að hafinn væri undirbúningur að stofnun nýs safns á Akureyri um sjóminjar af öllum stærðum og gerðum og segja þannig sögu útgerðar, fiskvinnslu, skipasmíða og niðursuðu sjávarafurða. Vinnuheiti safnsins er Sjóminjasafn Akureyrar. Tilkynningin hófst þó á því að þessi vinna sé hafin vegna atvika sem ekki verði sagt frá að sinni, en álykta má að þessar þreifingar tengist þeim breytingum sem ætla má að verði á rekstri Iðnaðarsafnsins um áramótin með færslu þess undir Minjasafnið.

Tekið er fram að flestöll skipslíkön sem nú eru í Iðnaðarsafninu, ásamt mörgu öðru sem tengist sjósókn, fiskvinnslu, skipasmíðaiðnaði og niðursuðu sjávarafurða muni ef vel tekst til verða á hinu nýja safni.

Kaldbakur EA 1 verður áfram á Akureyri

Í gær birtist svo önnur tilkynning á síðu safnsins þar sem sagt er frá því að í tengslum við fyrirhugaðar breytingar á rekstri Iðnaðarsafnsins um áramótin hafi starfsmenn safnsins farið í gegnum lánasamninga gripa, þar á meðal samnings um lán á líkani Aðalgeirs Guðmundssonar af Kaldbaki EA 1. Eigandi líkansins er Sjóminjasafn Reykjavíkur sem í dag heitir Borgarsögusafn Reykjavíkur.

Samningur um lán á líkaninu var útrunninn, en starfsmenn Iðnaðarsafnsins hafa fengið samþykki Borgarsögusafnsins um að líkanið muni fylgja skipslíkönum safnsins, „sem verða ef allt gengur að óskum flutt í væntanlegt Sjóminjasögusafn Akureyrar þá og þegar það verður sett á laggirnar,“ eins og það er orðað í tilkynningunni. Þar kemur einnig fram að frá og með áramótum verði líkanið í öruggri geymslu ásamt hinum skipslíkönunum.

Iðnaðarsafnið rætt í bæjarráði í dag

Málefni Iðnaðarsafnsins hafa verið í brennidepli í nokkurn tíma, meðal annars vegna rekstrarvanda eða skorts á fjárframlögum til rekstrarins, eftir því hvernig á það er litið. Fram kom sú hugmynd að færa rekstur Iðnaðarsafnsins undir Minjasafnið til að tryggja framtíð þess. Um það virðist hafa verið nokkuð breið sátt, en ágreiningur hins vegar um útfærslur og aðferðir við áframhaldandi rekstur safnsins. Sá ágreiningur hefur meðal annars leitt til úrsagnar Þorsteins Einars Arnórssonar úr stjórn Iðnaðarsafnsins, en hann hefur setið í stjórninni frá stofnun safnsins og er sennilega sá einstaklingur sem þekkir iðnaðarsögu Akureyrar manna best.

Þorsteinn var harðorður í garð fulltrúa Akureyrarbæjar í bréfi sem hann sendi félögum sínum í stjórninni þegar hann tilkynnti úrsögnina og sagði að verið sé að vinna „STÓRFELLT skemmdarverk“ á þeirri merku iðnaðarsögu sem Iðnaðarsafnið hefur að segja. 

Málefni Iðnaðarsafnsins verða til umfjöllunar á fundir bæjarráðs í dag. Akureyri.net leitaði eftir viðbrögðum Þórgnýs Dýrfjörð, forstöðumanns atvinnu- og menningarmála hjá Akureyrarbæ, við úrsögn Þorsteins og harðorðu bréfi hans, en Þórgnýr sagðist ekki telja rétt að fulltrúar Akureyrarbæjar tjáðu sig um málið fyrr en fulltrúar í bæjarráði hefðu fengið tækifæri til að fjalla um það.