Fara í efni
Fréttir

Umferðaröryggi aukið í Kjarnaskógi

Glæný gangbraut í Kjarnaskógi. Ljósmyndir: Snæfríður Ingadóttir

Í sumar hefur verið unnið að endurgerð Kjarnavegar sem liggur í gegnum Kjarnaskóg. Ein stærsta breytingin á svæðinu er tilkoma gangbrautar sem liggur á milli bílastæðisins og leiksvæðisins með turninum. Þá er einnig búið að malbika veginn og bílaplanið við Kjarnakot.

Tilkoma gangbrautarinnar og vegaþrenginga sitthvoru megin við hana eykur mjög umferðaröryggið á svæðinu. Mikil umferð gangandi fólks er við bílastæðið við leikvöllinn, fólks á leið til og frá bílastæðinu og yfir á göngubrautina í Kjarnaskógi eða inn á leiksvæðið.

Akureyri.net var nýlega með viðtal við framkvæmdastjóra tjaldsvæðisins á Hömrum sem sagði að huga þyrfti betur að stígakerfi í grennd við tjaldsvæðið. Þar sé mikil umferð af hlaupandi, gangandi og hjólandi vegfarendum á leið út í Kjarnaskóg og hefur bæjaryfirvöldum verið bent á þetta. Í framkvæmdunum við Kjarnaveg í sumar hefur verið sett upp gangstétt frá leiksvæðinu, að bílaplaninu við Kjarnakot og nokkra metra áfram meðfram bílveginum eða að malarvegi sem liggur beint í gegnum skóginn og að reiðhjólastígnum sem liggur inn að Hrafnagili.

Glæsileg bílastæði eru komin við Kjarnakot.

Gangstétt liggur nú meðfram bílveginum á milli leiksvæðisins og Kjarnakots. Gangstéttin heldur áfram niður brekkuna og endar við malarveg sem liggur í gegnum skóginn og tengist reiðhjólastígnum sem liggur inn að Hrafnagili.