Fréttir
Umfangsmikil æfing slökkviliðsins
23.11.2022 kl. 17:40
Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri, kominn út í körfu lyftubíls slökkviliðsins, eftir að honum var „bjargað“ út um glugga skrifstofu sinnar á 4. hæð rannsóknarhússins Borga. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Slökkvilið Akureyrar hóf í dag þátttöku í eldvarnaátaki Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna með rýmingar- og björgunaræfingu í rannsóknarhúsinu Borgum og aðalbyggingu Háskólans á Akureyri. Um er að ræða umfangsmestu rýmingaræfingu sem Slökkvilið Akureyrar hefur ráðist í.
Fjöldi starfsmanna og nemenda rýmdu byggingarnar og söfnuðust saman á fyrirfram ákveðnum svæðum. Notaður var búnaður sem slökkviliðið fékk frá Vegagerðinni til æfinga í jarðgöngum, tendraður var gervieldur og rými fyllt með sviðsreyk. Þá var björgun fólks úr byggingunum æfð, hápunkturinn var án efa „björgun“ Eyjólfs Guðmundssonar, rektors háskólans, út um glugga skristofu hans á 4. hæð rannsóknarhússins Borga.