Fara í efni
Fréttir

Um 9.500 gestir í Hlíðarfjalli um páskana

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Veturinn var mjög góður fyrir skíðasvæðið í Hlíðarfjalli þegar á allt er litið. Tekjurn af rekstri svæðisins voru meiri en árið áður, sem nemur á aðra milljón, og gestir á svæðinu voru rúmlega tvö þúsund fleiri en árið á undan. Skíðasvæðið var opið í 105 daga í vetur, en 99 veturinn áður. Páskarnir voru mjög góðir, en þá komu 9.500 gestir í fjallið og veður eins og best verður á kostið. Þetta kemur fram í frétt á vef Akureyrarbæjar í dag. 

Fyrir dyrum standa umfangsmiklar og kostnaðarsamar framkvæmdir í sumar, viðhaldsvinnu við Fjarkann og Fjallkonuna, nýr vír settur í Stromplyftuna, gírabúnaður endurnýjaður í Hjallabraut og svo stærstu framkvæmdina sem er bygging nýrrar vélageymslu sem áætlað er að verði lokið á árinu 2024. Þá er einnig orðið tímabært að ráðast í ýmsar framkvæmdir og endurnýjun á húsakosti svæðisins, að því er fram kemur í fréttinni.

Nokkrir punktar um nýliðinn vetur og sumarið fram undan:

  • Vegna aðstæðna þurfti að flytja fjölmörg mót sem áttu að fara fram á öðrum skíðasvæðum og halda þau í Hlíðarfjalli. 
  • Nýja stólalyftan, Fjallkonan, var keyrð í 23 daga eða rúmlega fimmta hvern dag sem opið var í fjallinu.
  • Gönguskíðabrautin í fjallinu er enn opin.
  • Undirbúningur fyrir sumaropnun stendur yfir og er áætlað að hjólagarður verði opinn frá 12. júlí til 12. september.
  • Fjarkinn verður opinn á fimmtudögum og föstudögum kl. 17-21, laugardögum kl. 10-17 og sunnudögum kl. 10-16 fyrir þau sem vilja koma sér ofar í fjallið.
  • Áætlað er að Fjallkonan verði opin um helgar frá 22. júlí til 20. ágúst, samtals fimm helgar á laugardögum og sunnudögum kl. 10-15.


Fjallkonan, nýjasta lyftan í Hlíðarfjalli, var keyrð rúmlega fimmta hvern dag sem opið var í fjallinu.