Fara í efni
Fréttir

Týpískur Akureyringur prúður og íhaldssamur

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Akureyringar eru reglufastir, prúðir og með miklar skoðanir á skipulagsmálum. Þetta segir bæjarstjórinn Ásthildur Sturludóttir en hún er viðmælandi í nýjum hlaðvarpsþáttum í umsjá Hildu Jönu Gísladóttur sem Akureyri.net sagði frá fyrr í dag.

Formfastir og ekki ókurteisir

Bæjarstjórinn er viðmælandi í þætti númer tvö þar sem karaktereinkenni íbúa í mismunandi bæjarfélögum eru til umræðu en Ásthildur hefur búið víða, meðal annars í Reykjavík, Stykkishólmi, á Seltjarnarnesi, Patreksfirði og nú á Akureyri. Í þáttunum segir bæjarstjórinn m.a. þetta um einkenni Akureyringa; Þeir eru reglufastir, þeir eru formfastir, prúðir. Þeir eru ekki ókurteisir, þeir eru með allt mjög slétt og fellt.“

Rífast yfir skipulagsmálum

Ásthildur segir Akureyringa og Hólmara vera mjög líka. Á báðum stöðum gerast hlutirnir ekki mjög hratt en skýringuna á því telur hún kannski liggja í því af því að það sé stjórnsýslu embættismanna kúltúr ríkjandi í þessu samfélögum. Mér finnst ég sjá einkennin á milli Hólmara og Akureyringa, þeir eru alveg rosalega líkir. Þeir eru ofboðslega íhaldssamir, rífast alveg svakalega mikið yfir skipulagsmálum, vilja ekki breyta neinu. Eitt hús og allt samfélagið fer á hliðina. Þetta er á báðum stöðum. Illskeytt pólitík verður út af skipulagsmálum á þessum stöðum.

Hlusta má á þættina í heild sinni á Spotify og Apple podcasts