Tvö lítil hús fyrir heimilislausa tilbúin
Tvö lítil einbýlishús, sem ætluð eru heimilislausum, eru því sem næst tilbúin ofan Sandgerðisbótar í Glerárhverfi. Það er SS Byggir sem byggði húsin. Hvort er 55 fermetrar, gert er ráð fyrir fjórum slíkum á svæðinu en reyndar óljóst hvenær tvö hin seinni verða byggð. Svo virðist sem enginn flokkist í raun undir það að vera heimilislaus á Akureyri um þessar mundir.
Ekki gekk þrautalaust að finna húsum þessum stað. Upphaflega hugmyndin var að þau risu á iðnaðarsvæði við Norðurtanga en frá því var fallið þar sem ekki þótti við hæfi að bjóða fólki bústað þar. Eftir mótmæli íbúa í Naustahverfi, nýjasta hverfi Akureyrar syðst í bæjarfélaginu, var horfið frá áformum um að húsin yrðu þar og niðurstaðan var reitur ofan Sandgerðisbótar, á milli Óseyrar og Krossanesbrautar. Steinsnar frá rís nýtt hverfi á næstu árum, Holtahverfi norður.