Fara í efni
Fréttir

Tveggja milljarða framkvæmd hafin

Silfurstjarnan í Öxarfirði í gær; neðst til vinstri á myndinni er grafan sem notuð var til að taka fyrstu skóflustunguna. Ljósmynd: Samherji.

Fyrsta skóflustungan var í gær tekin vegna stækkunar Silfurstjörnunnar, landeldisstöðvar Samherja í Öxarfirði. Kostnaðurinn við framkvæmdina er hátt í tveir milljarðar. Stöðin verður stækkuð um nærri helming, þannig að framleiðslan verður um þrjú þúsund tonn af laxi á ári.

Arnar Freyr Jónsson rekstrarstjóri Fiskeldis Samherja í Öxarfirði segir að alltaf sé ánægjulegt að hefja verklegar framkvæmdir. „Undirbúningurinn tekur eðlilega sinn tíma, svo sem vinna við skipulagsmál, leyfisumsóknir og fleira. Sennilega er þetta stærsta verkefnið á sviði atvinnumála á svæðinu síðan Silfurstjarnan var byggð árið 1998, kostnaðurinn er á bilinu einn og hálfur til tveir milljarðar króna. Við höfum náð ágætis árangri í rekstrinum hérna enda eru aðstæðurnar hérna að mörgu leyti ákjósanlegar,“ segir Arnar Freyr á vef Samherja.

Undanfari stórs verkefnis á Reykjanesi

Byggð verða fimm ný ker sem verða um helmingi stærri að umfangi en þau stærstu sem fyrir eru. Auka þarf sjótöku, byggja hreinsimannvirki, stoðkerfi og koma fyrir ýmsum tækjabúnaði.

Fiskeldi Samherja áformar að byggja upp allt að 40.000 tonna landeldi á laxi á næstu árum og tengist stækkunin í Öxarfirði þeim áformum.

„Já við getum sagt að þessi mikla stækkun Silfurstjörnunnar sé nokkurs konar undanfari þessa stóra verkefnis á Reykjanesi, við ætlum að nýta okkur þá reynslu sem við öðlumst hérna fyrir norðan þegar uppbyggingin hefst fyrir alvöru fyrir sunnan. Þetta eflir klárlega samfélagið í Norðurþingi og ég hlakka til að takast á við þetta verkefni með því öfluga heimafólki sem hérna starfar,“ segir Arnar Freyr.

Eflir Öxarfjörð sem matvælasvæði

Olga Gísladóttir vinnslustjóri sláturhúss Silfurstjörnunnar segir mikið fagnaðarefni að stöðin verði stækkuð.

„Já, sannarlega. Silfurstjarnan er stærsti vinnuveitandinn í Öxarfirði fyrir utan sjálft sveitarfélagið. Með þessari stækkun fjölgar starfsfólki og þjónustuðilar fá aukin verkefni. Þessi starfsemi styrkir svæðið svo um munar sem matvælahérað enda eru aðstæður frá náttúrunnar hendi ákjósanlegar. Ég hef starfað hérna frá upphafi og þess vegna fylgst ágætlega með rekstrinum. Héðan fara vikulega milli 20 tog 30 tonn af laxi og með stækkun aukast umsvifin verulega. Ég er því full tilhlökkunar,“ segir Olga á vef Samherja.

„Það er hátíð í bæ“

Það var Benedikt Kristjánsson starfsmaður Silfurstjörnunnar sem tók fyrstu skóflustunguna í gær. Benedikt sá einmitt um byggingu Silfurstjörnunnar á sínum tíma og var framkvæmdastjóri um árabil.

„Já, ég sá um framkvæmdirnar á sínum tíma og meiningin er að ég verði eftirlitsmaður með stækkuninni. Það er alltaf stór stund þegar fyrsta skóflustungan er tekin, ég naut góðrar leiðsagnar við að stýra þessari stóru og kraftmiklu gröfu. Það verður ansi mikið umleikis hérna næstu mánuðina sem styrkir atvinnulífið í Öxarfirði með margvíslegum hætti, þannig að það er hátíð í bæ.“