Fara í efni
Fréttir

Tveggja hæða vagn rúntar um bæinn í sumar

Gestir Akureyrar geta í sumar rúntað um á tveggja hæða „hop on, hop off“ vagni. Vagninn fær yfirhalningu áður en sumarvertíðin byrjar.

Stórborgarbragur mun færast yfir Akureyri í sumar þegar tveggja hæða vagn mun rúnta um götur bæjarins með ferðamenn. Bifreiðin er komin til Akureyrar þar sem verið er að gera hana klára fyrir sumarvertíðina en m.a. stendur til að skreyta hana með nýjum táknum í takt við Akureyri.

Það er fyrirtækið Akurinn sem á rútuna en fyrirtækið hefur undanfarin ár boðið ferðamönnum upp á svokallaðar hop on hop off-ferðir um Akureyri. Að sögn eigandans, Sæmundar Pálssonar, hafa þessar ferðir mælst vel fyrir og verið nóg að gera. Hann hefur þó aðeins verið að bjóða upp á þessar ferðir þegar stór skemmtiferðaskip eru í höfn og þá oft verið með tvo vagna í gangi í einu til að sinna eftirspurn.

Gott útsýni af efri hæðinni

Sæmundur segir að vagninn hafi nú þegar vakið athygli og forvitni fólks enda um skemmtilegt farartæki að ræða. Í flestum stórborgum er boðið upp á svona hop on and off vagna þar sem ferðamenn geta skoðað það markverðasta í einni ferð og hoppað af eða í vagninn þar sem hentar. Segir Sæmundur að heimamenn gætu líka haft gaman af því að fara í skoðunarferð með vagninum en útsýnið er mjög skemmtilegt af efri hæðinni. Bestu sætin í vagninum séu í fremstu röðinni á efri hæðinni en þar er sæti fyrir sex manns.