Fréttir
Tvær brennur í kvöld og flugeldasýning
31.12.2023 kl. 17:30
Brennan við Skógarböðin er á tanganum við Eyjafjarðarbraut eystri, rétt við Leiruveginn. Ljósmyndir: Þorgeir Baldursson
Boðið er upp á tvær áramótabrennur á svæðinu í kvöld. Önnur er vestan við svæði Golfklúbbs Akureyrar að Jaðri, á vegum Akureyrarbæjar, en hin, sem er á vegum Skógarbaðanna, er á tanganum við Eyjafjarðarbraut eystri, eins og sjá má á myndinni að ofan.
Kveikt verður í brennunni vestan golfallvarins klukkan 20.30 en hinni kl. 21.00.
Flugeldasýning björgunarsveitarinnar Súlna hefst kl. 21.00. Skotið verður af hefðbundnum stað, nálægt höfuðstöðvum Norðurorku við Rangárvelli.
Vert er að geta þess að opið verður í Skógarböðunum fram yfir miðnætti í kvöld þannig að bæði verður hægt að fylgjast með brennunni og svo hinni hefðbundnu flugeldasýningu bæjarbúa – skothríðinni miklu – sem nær hámarki um miðnætti.
Í tilkynningu frá Skógarböðunum er fólki bent á að hægt verði að leggja bílum bæði á planinu við Skógarböðin og á planinu þar sem ráðgert er að byggja hótel í tengslum við böðin.
„Við hvetjum þau sem leggja á planinu við Skógarböðin til að labba stíginn fyrir neðan böðin til þess að þurfa ekki að labba meðfram þjóðveginum. Hlökkum til að sjá ykkur sem flest, förum varlega og njótum áramótanna saman,“ segir í tilkynningunni.
Brennan á vegum Akureyrarbæjar var orðin myndarleg þegar þessi mynd var tekin í dag.
Hér má sjá hvar brennan á vegum Akureyrarbæjar verður í kvöld, við suðvestur horn svæðis golfklúbbsins. Á myndinni má sjá hvar hægt er að leggja bílum – SVÆÐI MERKT P – og merktar gönguleiðir að brennunni.