Tryggvi Helgason flugmaður látinn
Tryggvi Helgason, flugmaður, lést 31. mars síðastliðinn, tæplega níræður að aldri. Tryggvi var fæddur 7. apríl 1932 en lést 31. mars í Bandaríkjunum, þar sem hann hafði verið búsettur síðustu fjóra áratugi.
Foreldrar Tryggva voru Helgi Tryggvason og Kristín Jóhannsdóttir. Börn Tryggva og Petreu Guðnýjar Konráðsdóttur, ljósmóður, eru Helgi, Guðlaug Inga, Svandís, Tryggvi Pétur og Ingveldur. Dóttir Tryggva og Erlu Jónasdóttur er Anna Bryndís.
Tryggvi eignaðist fyrstu flugvélina 1955 þegar þeir Jóhann bróðir hans keyptu Auster V sjúkraflugvél. Þremur árum síðar keyptu þeir flugvél af gerðinni Cessna 180, til sjúkra- og leiguflugs. Jóhann fórst með þeirri vél í janúar 1959 og Tryggvi hætti þá störfum hjá Flugfélagi Íslands í því skyni að halda flugrekstri bróður síns áfram. Tryggvi stofnaði Norðurflug og var með umfangsmikinn flugrekstur á Akureyrar þar til hann seldi fyrirtækið 1974.
Árið 1974 bauð Tryggvi sig fram til Alþingis. Hann skipaði efsta sæti á lista Lýðræðisflokksins, M-listans, í Norðurlandskjördæmi eystra. Það var um þær mundir sem hann, fyrstur manna, varpaði fram þeirri hugmynd að bora jarðgöng í gegnum Vaðlaheiði. Hlaut hugmyndin ekki miklar undirtektir en varð að veruleika áratugum seinna sem kunnugt er.
Tryggvi flutti til Texas í Bandaríkjunum árið 1981, rak þar lítinn flugvöll í nokkur ár og kenndi flug. Eftir það ók Tryggvi flutningabíl, flutti til Nýju Mexíkó og bjó þar til dauðadags.