Tryggja þarf gott list- og verknám í grunnskólum
Fræðslu- og lýðheilsuráði Akureyrar hefur verið falið að kanna hvernig kennslu og umgjörð starfs-, list- og verknáms sé háttað í grunnskólum bæjarins, til að meta stöðuna og út frá því setja fram tillögur um aðgerðir í þeim tilgangi að auka vægi list- og verkgreina í starfi skólanna.
Tillaga bæjarfulltrúa Framsóknar þessa efnis var samþykkt á fundi bæjarstjórnar í gær. Gunnar Már Gunnarsson bæjarfulltrúi fagnar því mjög, en segir í grein sem birtist á Akureyri.net í morgun um tillöguna: „hún kom hins vegar ekki alveg til af góðu einu, því í vikunni bárust þær fregnir af skólastarfi Oddeyrarskóla að smíðakennsla verður að öllu óbreyttu felld niður í núverandi mynd og óvíst hvenær hún verður tekin upp aftur. Ástæðuna má að hluta rekja til þeirrar ákvörðunar að breyta smíðastofu skólans og koma þar fyrir leikskóladeildum.“
Að sjálfsögðu þarf að bregðast skjótt við húsnæðisvanda leikskólanna sem blasir við, segir Gunnar, en þótt verkefnið sé brýnt, verði alltaf að meta fórnarkostnað þeirra lausna sem verða fyrir valinu, og velta honum upp, hvort sem lausnirnar eru til skemmri eða lengri tíma. „Í þessu tilviki virðist verklegri kennslu í tilteknum grunnskóla að einhverju leyti hafa verið fórnað í staðinn fyrir fleiri leikskólarými. Það er auðvitað ekki nógu gott, þótt ég efist ekki um það eitt andartak að stjórnendur og kennarar Oddeyrarskóla muni reyna að finna einhverja lausn á þeirri stöðu líka.“
Smellið hér til að lesa grein Gunnars Más