Fara í efni
Fréttir

Trjáfelling er „ekki í þágu borgarbúa“

Mynd af vef Reykjavíkurborgar og hluti fundargerðar umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar frá því á miðvikudaginn.

„Ég er orðlaus yfir bókun meirihlutans í Reykjavík varðandi trjáfellingar í Öskjuhlíð,“ segir Ingibjörg Isaksen, þingmaður Norðausturkjördæmis og formaður þingflokks Framsóknarflokksins, í færslu á Facebook í dag og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, tekur heilshugar undir með þingmanninum.

Aðgerðaráætlun um trjáfellingar í Öskjuhlíð í þágu flugöryggis var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavík á miðvikudaginn og vísað áfram til staðfestingar borgarráðs.

Það sem vekur furðu Ingibjargar og Ásthildar er bókun sem fulltrúar meirihlutaflokkanna í borgarstjórn lögðu fram. Bókun fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Flokks fólksins og Vinstri grænna hófst á þessari setningu:

„Við föllumst á áætlun um fellingu trjáa í Öskjuhlíð vegna flugöryggis sem kynnt var á fundinum.“

Lokakafli bókarinnar var svohljóðandi:

„Við teljum fulla ástæðu til að árétta að skógurinn í Öskjuhlíðinni er mikilvægt upplifunar- og útivistarsvæði fyrir borgarbúa. Við munum gæta þeirra hagsmuna áfram en ekki síður flugöryggisins. Verkferlar sem varða öryggi flugvallarins þurfa að vera skýrir hvað varðar alla aðila málsins. Við teljum enn fremur að eðlilegast sé að ríkið standi straum af kostnaði trjáfellingarinnar. Hún er ekki í þágu borgarbúa.“

... er líka orðlaus

Ingibjörg Isaksen segir í áðurnefndri Facebook færslu: „Flugvöllurinn er líflína fólksins á landsbyggðinni og á alltaf að njóta vafans. Það má vel vera að meirihlutinn líti svo á að trjáfellingin sé ekki í þágu borgarbúa – ég lít svo á að hún sé í þágu allra landsmanna enda borgarbúar hluti landsmanna! Held að meirihluti borgarstjórnar ætti að gera sér grein fyrir hlutverki höfuðborgar landsins.“

Ásthildur Sturludóttir deilir færslu Ingibjargar á Facebook og skrifar: „Ég tek heilshugar undir með Ingibjörgu Isaksen en er líka orðlaus yfir þessari bókun meirihlutans í Reykjavík, þeirra sem fara með stjórn borgarinnar. Reykjavík er höfuðborg okkar allra og gegnir mikilvægu öryggishlutverki fyrir Ísland. Það er augljóst að það er ekki sami skilningur allra á því.“

Útskrift úr fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar sem vitnað er til í fréttinni.