Fara í efni
Fréttir

Tími dekkjaskipta nálgast óðfluga

Þegar haustar og kólnar í veðri huga flestir að dekkjaskiptum. Sumir fara alltaf á sama verkstæðið en aðrir leita að lægsta verðinu. Akureyri.net birtir hér verðskrár fjögurra dekkjaverkstæða af þeim sex sem rekin eru í bænum, og tók forsvarsmenn þeirra tali. Þeir voru spurðir hvort forsjálir væru farnir að koma til þeirra í dekkjaskipti og hvort þeir hefðu einhver heilræði handa fólki inn í veturinn.

Dekkjahöllin Draupnisgötu 5 – Verðskrá

Jóhann Jónsson, markaðsstjóri í Dekkjahöllinni sagði að nú þegar veður færi kólnandi væri sniðugt fyrir þá sem ætla sér að vera á loftbóludekkjum, að setja þau undir. Fyrir þau sem eru á heilsársdekkjum „er betra að svissa fram og afturdekkjum svo þau eyðist jafnt.“

Höldur dekkjaverkstæði, Gleráreyrum 4 – Verðskrá

Sveinn Bjarman, þjónustustjóri er búinn að vera í bransanum í tæplega 50 ár. Hans heilræði er að „vera tilbúinn þegar þetta brestur á. Mjög margir eru fyrirhyggjusamir og tímanlega í þessu og eiga jafnvel auka felgugang.“

Höldur er með dekkjahótel og þar á bæ er hringt í viðskiptavini hótelsins og þeir minntir á að vera tímanlega í dekkjaskiptum. Sveinn sagði enn fremur: „Ef fólk er að fara suður á það að skipta áður en það fer af stað því líklegt er að snjói á fjallvegum.“ Um val á dekkjum sagði hann að nagladekkin virkuðu best. Engin önnur dekk gera gagn á blautu svelli, sem eru aðstæður sem eru algengar hér á okkar svæði.

Nesdekk Njarðarnesi 1 – Verðskrá

Fannar Snær Ásmundsson, starfsmaður í Nesdekk, sagði að „fólk væri aðeins byrjað að setja nagladekkin undir.“ Hans heilræði er að „bóka tíma sem fyrst því það flýtir fyrir, og reyna að vera á undan örtröðinni.“

N1 hjólbarðaþjónusta Réttarhvammi – Verðskrá

Unnsteinn Jónsson, sölustjóri hjá N1 hjólbarðaþjónustu, sagði að dekkjaskipti á vörubílum væru byrjuð „og einnig kæmi fólk sem væri að fara til útlanda og vildi vera öruggt um að komast heim aftur.“ Um val á dekkjum sagði hann að skilyrðin hér væru gjörólík skilyrðum á suðvesturhorninu. Veðurfar á veturna hér fyrir norðan væri þannig að það krefðist frekar nagladekkja. Unnsteinn sagði að lokum að það mikilvægasta væri að horfa á öryggið: „Góð dekk skipta máli. Þetta heldur manni á veginum. Sísti staðurinn til að spara á eru dekkin. Það þarf að horfa á gæðin því þau skipta máli.“

Bíleyri og Bílatorgið

Bíleyri og Bílatorgið bjóða einnig upp á hjólbarðaþjónustu en birta ekki verðskrá á netinu. Sjálfsagt er þó að grennslast einnig fyrir um verð hjá þessum fyrirtækjum áður en ákvörðun er tekin um hvar skal skipta um dekk fyrir veturinn.