Fara í efni
Fréttir

Tímamótasamningur Einingar-Iðju og FVSA

Eiður Stefánsson, formaður FVSA, og Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, eftir undirskrift samningsins í morgun. Mynd af vef Einingar-Iðju.

Eining-Iðja og Félag verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri og nágrenni hafa samið um samnýtingu iðgjalda félagsmanna vegna fræðslusjóðs, orlofssjóðs og sjúkrasjóðs félaganna.

 „Markmið samstarfsins er að auðvelda félagsmönnum aðgang að þeim réttindum sem þeir þegar hafa öðlast hjá öðru félaginu þegar þeir þurfa að færa sig milli félaga vegna breytinga á starfsvettvangi,“ segir á vef Einingar-Iðju.

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, og Eiður Stefánsson, formaður FVSA, undirrituðu samninginn í morgun. Samningurinn mun gilda til að byrja með í eitt ár og verður endurskoðaður mánuði áður en hann rennur út.

„Tilgangur samstarfsins er að telja saman réttindi félagsmanns hjá hvoru félaginu, í þeim tilgangi að félagsmaður þurfi ekki að bíða ávinnslutíma réttinda sinna heldur getur nýtt það sem þegar hefur áunnist hjá fyrra félagi og hinu nýja. Núverandi regla um 6 mánaða rétt eftir síðustu greiðslu gildir áfram en annars gildir sú regla að greitt hafi verið a.m.k. samtals 6 mánuði til beggja félaganna.“

Fyrst félaga til að gera slíkan samning

Björn segir að félögin hafi í raun unnið á þessum nótum undanfarin ár en ákveðið hafi verið að setja reglurnar á blað. „Ég veit ekki betur en að Eining-Iðja og FVSA séu þar með fyrst félaga innan ASÍ til að gera slíkan samning. Þetta er mikill gleðidagur því með þessu erum við að stíga stórt skref í að tryggja að réttindi fólks detti ekki niður þegar viðkomandi flytur sig á milli félaganna. Ég vona að svona samningur verði gerður við fleiri félög sem fyrst. Samningurinn mun líka verða til þess að við gerum meiri kröfu á að félagsmenn verði í þeim félögum sem hefur samningsumboð fyrir viðkomandi.“