Tímabundin leyfi til búsetu varhugaverð
Bæjarráð Akureyrar telur varhugavert að tímabundið leyfi verði gefið til búsetu á atvinnusvæðum. Ekki sé ljóst hvaða fordæmi væri verið að gefa með slíku og gera megi ráð fyrir þrýstingi á að slík leyfi verði framlengd og leiði mögulega til varanlegrar búsetu á svæðum sem ekki hafa verið skipulögð sem slík.
Þetta kemur fram í bókun bæjarráðs vegna erindis frá umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis þar sem óskað er umsagnar um frumvarp innviðaráðherra til laga um tímabundnar undanþágur frá skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulagi. Með bókuninni ítrekar bæjarráð fyrri afstöðu sem fram kom í bókun 11. maí í vor ásamt umsögn skipulagsfulltrúa frá 12. maí um þetta sama mál þegar frumvarpið var lagt fram í fyrsta sinn.
Í bókuninni kemur fram að bæjarráð leggi sem fyrr áherslu á að Akureyrarbær hafi áhuga á að taka þátt í að leita lausna varðandi húsnæðisvanda fyrir hælisleitendur í góðri samvinnu við ríkið. Áðurnefndur varnagli er hins vegar sleginn. Bæjarráð telur enn fremur að skoða þurfi vel hvort og þá hvernig þessi breyting hefði áhrif á þjónustu sveitarfélaga og að skýrari grein verði gerð fyrir því hvaða afsláttur verði gefinn af kröfum til íbúðarhúsnæðis á atvinnusvæðum.