Tímabært að tala minna og framkvæma meira
Fyrirsögnin hér að ofan er í hnotskurn það sem kalla mætti niðurstöðu málþingsins „Á brún hengiflugsins?“ sem haldið var í Hofi síðastliðinn laugardag í samstarfi Akureyrarbæjar og Akureyrarakademíunnar. Um 70 gestir sótti málþingið að því er fram kemur í frétt á vef Akureyrarbæjar. Fjallað var um stefnu Akureyrarbæjar í umhverfis- og loftslagsmálum og það sem þörf er á að gera hér í bænum til að takast á við loftslagsvána.
Sagt er frá málþinginu á vef Akureyrarbæjar:
Inngangserindi fluttu Rut Jónsdóttir forstöðumaður umhverfis- og sorpmála hjá Akureyrarbæ og Stefán Gíslason stofnandi og eigandi UMÍS ehf. Environice.
Pallborðsumræður voru tvískiptar þar sem annars vegar voru dregin fram viðhorf unga fólksins til umhverfis- og loftslagsmála og hins vegar var lagt almennt mat á stöðuna og horft fram á veginn. Eftir hvort pallborð um sig var gefinn kostur á spurningum úr sal og sköpuðust frjóar og fjörmiklar umræður.
Segja má að helstu niðurstöður málþingsins hafi verið að kominn sé tími til að tala minna en framkvæma meira. Gestir í pallborði lögðu áherslu á að sett verði fram raunhæf aðgerðaráætlun sem hægt er að vinna eftir, að fræðsla allra aldurshópa verði efld til mikilla muna, flokkun, endurnýting og hringrásarhagkerfið verði sett í forgang, almenningssamgöngur verði efldar sem og stígakerfi, og síðast en ekki síst að auknum fjármunum verði varið til umhverfis- og loftslagsmála með skýrri forgangsröðun.
Myndir frá málþinginu fylgja fréttinni á vef bæjarins - sjá hér.