Tillaga um röðun felld, prófkjör samþykkt
Sjálfstæðismenn halda prófkjör til að velja fjóra efstu á lista flokksins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar á Akureyri næsta vor. Þetta var samþykkt á fundi fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í kvöld eftir að felld hafði verið tillaga meirihluta stjórnar ráðsins um að raðað yrði í efstu sætin. Stuðning 2/3 fundarmanna þurfti til að sú tillaga yrði samþykkt.
Á fundinum í kvöld tilkynnti Eva Hrund Einarsdóttir, einn þriggja bæjarfulltrúa flokksins, að hún gæfi ekki kost á sér til endurkjörs næsta vor. Eva Hrund hefur setið í bæjarstjórn frá árinu 2014. Gunnar Gíslason oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn verður heldur ekki í kjöri en þriðji bæjarfulltrúinn, Þórhallur Jónsson, hefur hug á að starfa áfram í bæjarstjórn eftir því sem næst verður komist.