Fara í efni
Fréttir

Tillaga skólameistara: Notið íslensku til alls

Karl Frímannsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri, nefndi, við brautskráningu stúdenta frá skólanum á þjóðhátíðardaginn, hve mikilvægi væri að nota íslensku til alls.

„Við eigum orð og hugtök á íslensku yfir langflesta hluti og ef þau eru ekki til þá höfum við smíðað nýyrði svo við getum alltaf fundið svar svo vitnað sé í ljóð Þórarins Eldjárns,“ sagði Karl.

„Okkur er mikilvægt að tala í það minnsta eitt erlent tungumál vel sem hjá flestum er enska. Við ættum að leggja allt kapp á að tala íslensku vel en líka ensku eða annað erlent tungumál. Þegar við blöndum þeim of mikið saman er hætta á því til framtíðar litið að erfiðleikum verði bundið fyrir þá einstaklinga sem það gera að koma hugsun sinni í orð svo aðrir skilji.“

Hugsun og tungumál

„Tómas Guðmundsson skáld orðaði það svo að „skipuleg hugsun unir ekki óvönduðu málfari“ sem væri gott að hafa til hliðsjónar, sérstaklega í uppeldi barna og skólastarfi. Þessi umræða hefur ekkert með þjóðerniskennd að gera heldur einvörðungu mikilvægi þess að hugsun og tungumál eru háð hvort öðru. Ég geri að tillögu minni og hvet alla MA stúdenta, yngri sem eldri, að taka meðvitaða ákvörðun um að nota íslensku til alls,“ sagði Karl Frímannsson.