Fara í efni
Fréttir

TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN, SJÓMENN!

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Sjómannadagurinn er haldinn hátíðlegur í dag. Sú skemmtilega hefð hefur skapast að eikarbáturinn Húni II sigli um Pollinn á þessum hátíðisdegi og það gerði hann í dag; Húni sigldi frá smábátahöfninni í Sandgerðisbót laust eftir hádegi ásamt fjölda smábáta og hafnsögubátnum Seifi.

Skemmtiferðaskipið MSC Preziosa og Kaldbakur EA 1, einn togara Samherja, „stóðu“ heiðursvörð þar sem þau lágu bundin við bryggju þegar afmælisbarnið – Húni II er sextugur um þessar mundir – birtist fólki sem beið við Pollinn og sigldi þar stóran hring ásamt fylgdarliði áður en haldið var út í Bót á ný. Þaðan er fólki boðið að sigla með bátnum kl. 14.30 og aftur kl. 15.30 í dag. 

Akureyri.net óskar öllum sjómönnum nær og fjær innilega til hamingju með daginn!

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson