Þúsund manns í hraðpróf fyrir helgina
Nóg er að gera á Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) um þessar mundir en um 700 manns komu í hraðpróf í dag og í gær vegna Covid-19 og búist er við um 300 manns á morgun. Ástæða þessa mikla fjölda eru stórir viðburðir í bænum um helgina m.a. aldamótatónleikar í Íþróttahöllinni og nýnemaball Verkmenntaskólans á Akureyri. Framvísa þarf neikvæðu hraðgreiningarprófi á þessum viðburðum, sem ekki má vera eldra en 48 klukkustunda gamalt.
Aukið umfang með tilkomu hraðprófa
Umfang starfsemi tengdri sýnatökum jókst talsvert með tilkomu hraðprófana og hefur því HSN ráðið Sigríði Dagnýju Þrastardóttur sem verkefnastjóra til að til að sjá um skipulag og utanumhald með öllum Covid-19 sýnatökum á Akureyri. Þá hefur HSN einnig fengið til liðs við starfsmenn frá Securitas til að sinna sýnatökum.
Eiga mikið hrós skilið
Guðný Friðriksdóttir, framkvæmdarstjóri hjúkrunar við HSN, sagði í samtali við Akureyri.net að allt hafi þó gengið vel hingað til „en það er búið að vera mikið álag á okkar starfsfólk síðustu misseri bæði vegna bólusetninga og sýnatöku, og fólk búið að leggja mikið á sig til að láta hlutina ganga upp. Okkar fólk, og þeir sem hafa aðstoðað okkur í þessu verkefni s.s. slökkvilið, björgunarsveitir og lögregla, eiga mikið hrós skilið. Og það má líka til gamans nefna að frá því að bólusetningar hófust í lok desember 2020 er búið að gefa tæplega 60 þúsund sprautur með Covid bóluefni og taka um 45 þúsund sýni vegna covid 19 frá upphafi faraldurs.“