Þungar áhyggjur af lokun flugbrauta
Lokun tveggja brauta á Reykjavíkurflugvelli í myrkri, vegna áhrifa trjágróðurs, veldur Miðstöð sjúkraflugs á Íslandi þungum áhyggjum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Miðstöðinni en til hennar teljast Slökkvilið Akureyrar, Sjúkrahúsið á Akureyri og flugfélagið Norlandair.
Óheft aðgengi sjúkraflugvéla að Reykjavíkurflugvelli er í mörgum tilfellum lífsnauðsynlegt fyrir veika og slasaða af stærstum hluta landsins, segir í yfirlýsingunni. Árlega eru um 650 manns fluttir með sjúkraflugi til Reykjavíkur og í „ um 45% tilfella er um að ræða sjúklinga sem nauðsynlega þurfa að komast í bráða þjónustu á Landspítala Háskólasjúkrahúsi, þar með talið sjúklingar sem þurfa að komast í tímaháð inngrip, s.s. vegna bráðra kransæðaþrenginga, heilablóðfalla og háorkuáverka,“ segir í yfirlýsingunni. „Í slíkum tilfellum er ástand sjúklinga með þeim hætti að lengdur flutningstími sem myndi hljótast vegna flutnings frá Keflavíkurflugvelli getur dregið verulega úr lífslíkum eða batahorfum viðkomandi.“
Yfirlýsing Miðstöðvar sjúkraflugs á Íslandi vegna lokunar flugbrauta á Reykjavíkurflugvelli
Þann 10. janúar sl. var tilkynnt um verulegar takmarkanir á flugumferð um Reykjavíkurflugvöll. Sú takmörkun er fólgin í lokun tveggja flugbrauta í myrkri vegna áhrifa trjágróðurs á aðflugs- og brottflugsfleti umræddra flugbrauta.
Miðstöð sjúkraflugs á Íslandi lýsir yfir þungum áhyggjum vegna þessara takmarkana, enda er óheft aðgengi sjúkraflugvéla að Reykjavíkurflugvelli í mörgum tilfellum lífsnauðsynlegt fyrir veika og slasaða af stærstum hluta landsins.
Á hverju ári eru fluttir 950 til 1000 sjúklingar með sjúkraflugi þ.e. flugvélum, þar af um 630-650 til Reykjavíkur. Í um 45% tilfella er um að ræða sjúklinga sem nauðsynlega þurfa að komast í bráða þjónustu á Landspítala Háskólasjúkrahúsi, þar með talið sjúklingar sem þurfa að komast í tímaháð inngrip, s.s. vegna bráðra kransæðaþrenginga, heilablóðfalla og háorkuáverka. Í slíkum tilfellum er ástand sjúklinga með þeim hætti að lengdur flutningstími sem myndi hljótast vegna flutnings frá Keflavíkurflugvelli getur dregið verulega úr lífslíkum eða batahorfum viðkomandi.
Í þeim tilfellum, sem ekki teljast bráð, er ljóst að umræddar takmarkanir á notkun Reykjavíkurflugvallar munu hafa verulega hamlandi áhrif á aðgengi sjúklinga af landsbyggðinni að heilbrigðisþjónustu og fráflæði sjúklinga frá Landspítala.
Gögn um starfsemi sjúkraflugs árið 2024 sýna að a.m.k. 15% sjúkrafluga um Reykjavíkurflugvöll eiga sér stað í myrkri og þar af er umtalsverður hluti um þær flugbrautir sem nú hefur verið lokað.
Það er því ljóst að lokanir umræddra flugbrauta munu hafa áhrif á batahorfur og lífslíkur tuga sjúklinga ár hvert og er á skjön við lög um jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu.
Miðstöð sjúkraflugs á Íslandi bendir á að mikilvægt er að Reykjavíkurborg og önnur yfirvöld sem hafa með málið að gera leiti allra leiða til úrbóta málsins.