Fara í efni
Fréttir

Þú getur! styrkir Grófina um eina milljón

Frá 10 ára afmælisfagnaði Grófarinnar í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Grófin Geðrækt á Akureyri fær hvatningaverðlaun forvarna- og fræðslusjóðsins ÞÚ GETUR! í ár, styrk sem nemur einni milljón króna.  Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn er í dag og var styrkurinn afhentur í afmælishófi Grófarinnar, en 10 ára afmæli hennar er einmitt fagnað í dag og raunar alla þessa viku.

Ólafur Þór Ævarsson, geðlæknir, einn þriggja í stjórn sjóðsins, skrifar pistil á Akureyri.net í dag í tilefni alþjóðlega geðheilbrigðisdagsins og segir frá styrknum. „Þeir sem þekkja náið starfsemi Grófarinnar hafa með eigin augum séð hinn mikla árangur sem næst í ánægjulegum bataferlum og með fjölmörgum kraftaverkum.“ Aðrir í stjórn eru séra Pálmi Matthíasson og Sigurður Guðmundsson, fyrrverandi landlæknir.

Í pistlinum segir Ólafur þremenningana, sem allir eru Norðanmenn, hafa „fylgst með mikilvægu starfi Grófarinnar úr fjarlægð og skiljum vel mikilvægi þessa starfs. Við vitum að fjárstyrkur af þessu tagi kemur að góðum notum en berum einnig þá von í brjósti að viðurkenning ÞÚ GETUR! veki athygli á mikilvægu starfi Grófarinnar.“

Smellið hér til að lesa pistil Ólafs Þórs Ævarssonar