Fara í efni
Fréttir

Þróa einfalt próf til að finna krabba í blöðruhálsi

Baldur Auðunn Vilhjálmsson, mastersnemi í eðlisfræði í Danmörku, og merki verkefnisins.

Er mögulegt að komast að því mun fyrr en hingað til, hvort karlmenn eru með krabbamein í blöðruhálskirtli? Og með mun einfaldari hætti en áður? Það telja Akureyringurinn Baldur Auðunn Vilhjálmsson og samnemendur hans í Suður-danska háskólanum, Syddansk Universitet, í Óðinsvéum.

Baldur hefur, í mastersnámi sínu í hagnýtri eðlisfræði, unnið ásamt fleirum að verkefni sem snýst um að greina umrætt krabbamein úr þvagprufu. Það hefur ekki hefur verið gert áður og segir Baldur hópinn telja hægt að greina mein, eða hættu á því, jafnvel allt að 10 árum fyrr en nú er mögulegt.

Suður-danski háskólinn tók þátt í alþjóðlegri keppni iGEM, stofnunar sem einbeitir sér að framþróun lífhönnunar - synthetic biology - og kynnti þar umrætt próf fyrir fáeinum dögum. Keppt var í fjölmörgum flokkum og fékk danski hópurinn tvenn gullverðlaun, annars vegar fyrir bestu fræðisíðuna, þar sem upplýsingar um verkefnið voru settar fram, og fyrir besta vélbúnaðinn til gagnavinnslu. Prófið sjálft vakti einnig mikla athygli.

Nákvæmara og áreiðanlegra

Fjöldi karla greinist með blöðruhálskrabbamein á Íslandi ár hvert. Engin skipuleg leit hefur verið að þeirri tegund krabbameins, hvorki hér né í nágrannalöndum.

Tvær aðferðir eru notaðar í dag: annars vegar PSA mæling, sem gerð er með blóðprufu og Baldur segir ekki mjög áreiðanlega, hins vegar stingur læknir fingri í rass og þuklar blöðruhálsinn. „Það er áreiðanleg aðferð ef viðkomandi er kominn með krabba eða hætta á því hefur aukist, læknirinn finnur auðveldlega hvort blöðruhálskirtillinn hefur stækkað. Með prófinu sem við þróuðum er hins vegar hægt að komast að því miklu fyrr hvort menn séu með krabbameinið eða í áhættuhópi,“ segir Baldur við Akureyri.net.

Prófið sem þau Baldur þróuðu er raunar tvíþætt, bæði munnvatnsprufa og þvagprufa. Með þeim er hægt að finna ákveðna biomarka – lífmerki – sem ekki eru fyrir hendi nema maðurinn sé með blöðruhálskrabbamein á einhverju stigi, „sem gerir þetta miklu nákvæmara og áreiðanlegra próf en það sem nú er notað,“ segir Baldur.

„Við erum tiltölulega stórt lið, erum um 20 saman, og vinnum þetta frá ýmsum hliðum. Eftir alls konar vesen og mistök var það ótrúlega góð tilfinning þegar einhver úr hópnum kom hlaupandi út af rannsóknarstofunni stuttu fyrir lok keppninnar, og tilkynnti: Þetta virkar!“ rifjar Baldur upp.

Mikill áhugi er innan hópsins á að halda áfram með verkefnið. „Hvort þetta verður að raunverulegu prófi er ekki gott að segja, okkur þyrfti þá að takast að fá einhvern stóran framleiðanda til að koma að verkefninu. Innan heilbrigðisgeirans eru gífurlegar kröfur gerðar áður en svona lagað er sett á markað og mikið fjármagn þarf til. En fyrst okkur gekk svona vel verður sennilega auðveldara en ella að banka uppá hjá fjárfestum!“

„Óléttupróf“ fyrir karla!

Hópurinn úr danska skólanum hefur þegar ráðfært sig bæði við ýmsa sérfræðinga og leikmenn um framhaldið. „Við höfum talað við karlmenn á öllum aldri víða um heim. Sérfæðingar vilja að próf sem þetta yrði gert í samráði við lækni en margir aðrir að menn geti keypt sér próf sjálfir úti í búð og haft svo samband við lækni ef ástæða er til. Þetta yrði svona einskonar óléttupróf fyrir karlmenn!

Ástæða þess hvaða leið sérfræðingarnir vilja fara er ekki síst sú að þeir telja það gæti orðið mikið áfall fyrir karlmann að komast að því heima hjá sér að hann væri mjög líklega með krabbamein; þeir telja betra að læknir færi viðkomandi slíkar upplýsingar.“

Hópurinn er með tilbúnar tillögur um hvernig best væri að standa að málum og hverjir yrðu prófaðir fyrst. „Meðal þess sem við höfðum áhuga á var að fá aðgang að þvagbanka hér í Danmörku til að framkvæma frekari prófanir en það hefur ekki verið hægt vegna Covid. Við erum búin að sýna fram á, á rannsóknarstofunni, að þetta virkar og næst á dagskrá væri í raun að gera víðtækt próf á þúsundum manna.“

IGEM er sjálfstætt starfandi fyrirbæri en varð til upp úr aldamótum í þeim fræga MIT háskóla í Boston, Massachusetts Institute of Technology. „Venjulega snýst þessi keppni ekki síst um það að fara víða um heim, hitta hin liðin og mynda þannig tengsl við aðra sem fást við lífhönnun, eða hannaða líffræði eins og synthetic biology hefur verið kölluð á íslensku,“ segir Baldur. Lítið var um ferðalög nú vegna heimsfaraldursins og uppskeruhátíðin, sem jafnan fer fram í Boston að viðstöddu fjölmenni, var rafræn í ár.

Lengra líf – meiri lífsgæði

„Við erum auðvitað mjög stolt yfir árangrinum. Verkefnið hefur tekið meiripart ársins, og manni finnst dálítið skrýtið að þessu sé lokið. En því fylgir líka ákveðinn léttir. Þetta var gríðarleg vinna, eins og að vera í tvöföldu námi. En fyrst og fremst erum við ánægð og spennt yfir því hvað gerist í framhaldinu.“

Ein ástæða þess að hópur Baldurs valdi umrætt verkefni er persónuleg; einn úr liðinu missti pabba sinn nýlega úr krabbameini af þessu tagi.

Og þegar spurt er hverju prófið þeirra muni breyta, verði það að veruleika, stendur ekki á svari hjá Baldri: „Það sem við vonum að komi út úr þessu er áreiðanleg leið til að finna blöðruhálskrabbamein fyrr en nú er hægt; að eitthvað verði hægt að gera fyrir þá sem eru í áhættuhópi eða fá meinið, eitthvað sem lengir lífið eða leiðir til meiri lífsgæða.“

  • Baldur Auðunn er 25 ára. Hann varð stúdent frá MA fyrir fimm árum. Á myndinni er Baldur með hund sinn sem ber hið óvenjulega nafn Sjávarbotn, stundum kallaður Sjá. Hundurinn er blanda af Border collie, Schaefer og Grænlandshundi.