Fara í efni
Fréttir

Þrír bílar eyðilögðust í eldsvoða í nótt

Slökkviliðsmenn að störfum við Kjarnagötu á Akureyri í nótt. Mynd af vef RÚV: Ágúst Ólafsson

Þrír bílar brunnu í nótt á bílastæði við fjölbýlishús við Kjarnagötu á Akureyri. RÚV greindi fyrst frá í nótt og hefur eftir Rolf Tryggvasyni, varðstjóra hjá Slökkviliði Akureyrar, að tekist hafi að bjarga nokkrum bílum en viðbúið sé að nokkrir séu skemmdir.

„Tjónið er mikið að sögn varðstjórans, en enginn bílanna er rafknúinn að hans sögn. Engin hætta var á að eldurinn bærist í hús eða annað í nágrenninu, og fólk var ekki í hættu,“ segir í fréttinni.

Nánar hér á vef RÚV

Uppfært: Varðstjóri hjá lögreglunni gat ekki veitt neinar upplýsingar um brunann eða ástæður hans þegar Akureyri.net hafði samband við lögregluna núna í morgun, aðrar en þær að málið væri á forræði rannsóknadeildarinnar. Af því má ef til vill álykta að grunur gæti verið um íkveikju og rannsókn málsins á viðkvæmu stigi.

Búið er að fjarlægja bílana en verksummerkin leyndu sér ekki í morgun. Ljósmynd: Haraldur Ingólfsson