Fara í efni
Fréttir

Þórunn sveitarstjóri á Svalbarðsströnd

Þórunn Sif Harðardóttir hefur verið ráðin sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps. Hún hefur störf í júlí og er ráðin út kjörtímabilið, til 2026.

Þórunn Sif starfaði um tíma hjá Svalbarðsstrandarhreppi á síðasta ári og fyrri hluta þessa, þegar hún leysti skrifstofustjóra tímabundið af og sem verkefnastjóri fyrir göngu- og hjólastíg í Vaðlareit auk fleiri verkefna á skrifstofu hreppsins, að því er segir á vef sveitarfélagsins. „Á árunum 2013-2020 starfaði Þórunn Sif sem mannauðsstjóri hjá TDK Foil Iceland ehf og sem framkvæmdastjóri Skíðasambands Íslands um sex ára skeið,“ segir þar.

„Þórunn Sif hefur verið virkur þátttakandi í sveitarstjórnarmálum hjá Akureyrarbæ frá árinu 2014 sem m.a. varabæjarfulltrúi og nefndarmaður í íþróttaráði, frístundaráði og í stjórn Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar um tíma. Hún var formaður Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands 2014-2020, varamaður í Umhverfis- og mannvirkjaráði 2018-2020 og er formaður stjórnar Fallorku.

Þórunn Sif lauk diplomanámi í rekstrarstjórnun frá Háskólanum á Akureyri árið 2001 og diplomanámi í mannauðsstjórnun og leiðtogafærni frá Háskólanum í Reykjavík árið 2016 auk fjölda námskeiða.

Þórunn Sif er gift Tómasi Inga Jónssyni, umsjónarmanni fasteigna og hefur búið á Akureyri sl. fjóra áratugi.“