Þórsarar endurnýja skilti við Glerárgötu
Íþróttafélagið Þór sótti um og fékk samþykki skipulagsráðs fyrir uppsetningu ljósaskiltis við Glerárgötu, að sömu stærð og með sömu kvöðum og ljósaskilti við Þingvallastræti. Leyfið er veitt tímabundið til eins árs í senn þar til nýtt deiliskipulag fyrir Akureyrarvöll hefur tekið gildi.
Nýtt skilti verður 28,4 fermetrar að stærð á átta metra háu mastri. Íþróttafélagið Þór og knattspyrnudeild félagsins eiga auglýsingaskilti sem nú stendur við Glerárgötuna gegnt Greifanum. Sótt var um breytingu og byggingarleyfi fyrir nýju skilti á 8,3 metra háu stálmastri með tveimur stafrænum skjám. Í umsókninni kemur fram að það eigi eftir að koma í ljós hvort núverandi undirstöður séu nógu traustar fyrir nýja skiltið, en komi í ljós að svo sé ekki verði byggðar nýjar undirstöður.
Fram kemur í fylgigögnum með umsókninni að ljósmagni skiltisins verði stýrt með rafrænum hætti í samræmi við ljósmagn í umhverfinu hverju sinni. Mesta mögulega ljósmagn skiltisins verður um 9.000 nits og verður því stýrt í gegnum 4G búnað. „Hver skjár verður tengdur birtunema sem stýrir ljósmagni skjásins við mismunandi birtustig umhverfisins,“ segir meðal annars í fylgiskjali með umsókninni sem unnið var af verkfræðistofunni Mannviti.
Hilda Jana Gísladóttir S-lista sat hjá við afgreiðslu málsins. Sif Jóhannesar Ástudóttir, VG, bókaði að rétt hefði verið að hafna þessari beiðni um stækkun og breytingu á skilti þar sem samkvæmt gildandi Samþykkt um skilti og auglýsingar í lögsögu Akureyrarkaupstaðar séu fletti- og ljósaskilti óheimil í miðbæ Akureyrar.