Fara í efni
Fréttir

Þór og Aþena mætast í Höllinni í kvöld

Maddie Sutton, Emma Karólína Snæbjarnardóttir, Esther Fokke og Eva Wium Elíasdóttir í leik gegn Val á dögunum. Mynd: karfan.is.

Kvennalið Þórs í körfuknattleik tekur á móti liði Aþenu í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld kl. 19:15 og er leikurinn í 7. umferð Bónusdeildarinnar.

Þórsliðinu hefur gengið brösuglega að klára leiki og landa sigrum á útivelli þrátt fyrir að spila vel og eiga í fullu tré við andstæðinga sína í deildinni. Heimavöllurinn hefur hins vegar gefið tvo sigra nú þegar, gegn Grindavík og Tindastóli. Liðið hefur spilað sex leiki og unnið tvo en tapað fjórum. Öll töpin hafa komið á útivöllum.

Þór er í neðsta sæti deildarinnar, en þrjú önnur lið hafa unnið tvo leiki eins og Þór, það eru Valur, Aþena og Stjarnan. Aþena kom upp úr 1. deildinni í vor. Keppnin í Bónusdeildinni hefur verið jöfn í vetur og stutt í efstu lið þannig að hver sigur getur fært lið upp um nokkur sæti eins og staðan er í dag.

  • Bónusdeild kvenna í körfuknattleik
    Íþróttahöllin á Akureyri kl. 19.15
    Þór - Aþena