Þökk fyrir tryggðina, góðu horfnu vinir
Minnisvarði um fjóra unga menn sem fórust í flugslysi á Öxnadalsheiði fyrir 65 árum var afhjúpaður á heiðinni á sunnudaginn að viðstöddum hópi fólks, einkum fjölskyldum þeirra og vinum eins og Akureyri.net greindi frá. Smellið hér til að sjá þá frétt.
Þeir sem létust voru Bragi Egilsson frá Hléskógum í Höfðahverfi, Geir Geirsson frá Djúpavogi, Reykvíkingurinn Jóhann G. Möller og Ragnar Friðrik Ragnars frá Siglufirði.
Ingimundur Friðriksson flutti ávarp við athöfnina á Öxnadalsheiði, áður en hulunni var svipt af steininum fallega. Ingimundur veitti Akureyri.net góðfúslegt leyfi til að birta ávarpið. Það fer hér á eftir:
_ _ _
Hér skammt frá fórust fjórir ungir menn í hörmulegu flugslysi 29. mars 1958. Langt er um liðið en minningin um þá lifir meðal fjölskyldna og vina. Til þess að heiðra minningu þeirra fjórmenninganna verður nú afhjúpaður minnisvarði hér á heiðinni. Hér verður gott að staldra við og minnast.
Mér finnst hæfa að flytja hér hluta kveðjuorða sem Þórarinn Björnsson skólameistari MA flutti við minningarathöfn á sal skólans þriðjudaginn 1. apríl 1958. Hverfum 65 ár aftur í tímann.
Þórarinn sagði:
Seint á laugardag var ég staddur inni á flugvelli. Þar hitti ég einn stúdentanna frá fyrra vori. Hann sagði mér að hann væri að bíða eftir flugvél að sunnan en í henni væru fjórir félagar sínir frá fyrra ári. Þeirra væri von á hverri stundu. „Við fáum að sjá ykkur í kvöld“ sagði ég við hann og ég mun hafa bætt við: „Það verður gaman.“ Hann sagði að þeir ætluðu einmitt að koma á skemmtunina í skólanum og ég sá þá fyrir mér ganga inn skólaganginn hýra á svip og rétta fram hlýja höndina. Á leiðinni í bæinn gætti ég til lofts hvort ég kæmi ekki auga á vélina. En himinninn var auður og hljóður og mér finnst nú eftir á að einhver ónotagrunur hafi þá þegar læðst að mér. En ég hratt honum frá mér. Og kvöldið kom og skemmtunin hófst. Og gleðin var mikil svo að sjaldan hefir verið meiri. En ÞEIR voru ókomnir. Oftar en einu sinni datt mér í hug að hringja og spyrja. En ég gerði það ekki. „Þeir eru hjá félaga sínum. Þeir koma bráðum,“ hugsaði ég. En svo hringdi síminn. Lengur var ekki hægt að láta blekkjast. ÞEIR voru ókomnir í bæinn. Eitthvað hafði komið fyrir. Og gleðin hljóðnaði. Allir héldu heim. Og ýmsir munu hafa sofið lítið þá nótt.
Og morgunninn kom og grunurinn varð að vissu. Aldrei fyrr hef ég fundið það eins að dauðinn er staðreynd staðreyndanna, óhagganlegastur allra staðreynda. Þar verður engu um þokað. Frammi fyrir þeirri staðreynd verður allt smátt nema kærleiksrík auðmýkt og trú. Þegar ég sá líkin borin í líkhúsið fann ég betur en nokkru sinni fyrr fánýti margs þess sem við er strítt daglega.
Hér verður ekki saga þessara ungu manna rakin enda naumast um sögu að ræða. Fram að þessu hafði starfið aðeins verið undirbúningur undir annað meira. Lífið sjálft lá framundan í hillingamóðu framtíðarinnar. Ég nefni hér aðeins nöfnin: Bragi Egilsson, Geir Geirsson, Jóhann G. Möller, Ragnar Ragnars.
Allir höfðu þeir dvalist hér í skólanum árum saman, 4-6 ár. Allir höfðu þeir búið á heimavist. Um þá alla eru geymdar hér dýrar minningar og allir áttu þeir áreiðanlega dýrar minningar héðan. Hér höfðu þeir lifað margar gleðistundir og eflaust einnig reynslustundir og þeir höfðu fest tryggð við skólann. Um það er mér kunnugt.
Þökk fyrir tryggðina, góðu horfnu vinir. Ég trúi því ekki að hún verði ykkur nokkru sinni fjötur um fót hvar sem leiðin kann að liggja um hin miklu huldulönd.
Þökk og blessun okkar allra, kennara ykkar og skólasystkina, fylgir ykkur á þeim ókunnu slóðum.
Þannig mæltist skólameistara.
Minningargreinar birtust um þá fjórmenninga í skólablaðinu Muninn.
Um Braga Egilsson sagði Arngrímur Ísberg m.a.: Bragi heitinn Egilsson líður öllum seint úr minni er honum kynntust. Hæfileikar hans og óvenju heilsteyptur persónuleiki gera hann ógleymanlegan. Minningin um hann er minning um góðan dreng með göfugt hjartalag; minning um trölltryggan vin og skemmtilegan félaga.
Um Geir Geirsson sagði Jónatan Sveinsson m.a.: Geir heitinn var höfðinglegur á velli og höfðingi í lund. Yfir svip hans hvíldi ávallt einhver heiðríkja og festa sem skapaði honum þá virðingu og traust sem hann hvarvetna naut. Það mátti með sanni segja að hann var glæsilegur fulltrúi íslenskrar æsku. Hann ávann sér hylli nemenda jafnt sem kennara og varð brátt stolt og stoð okkar allra og aðalfulltrúi nemenda bæði utan skólans og innan. Öll hans störf voru unnin af þeim dugnaði og fórnfýsi sem þeim einum er lagin er hafa góða sál og gott hjartalag.
Um Jóhann G. Möller sagði Björn Pétursson m.a.: Jóhann hafði lagt gjörva hönd á margt bæði til sjós og lands og sagði okkur oft af ferðum sínum á þann fróðlega og skemmtilega hátt sem honum einum var unnt. Hann var fróður vel og um hann var sagt að hann væri eini húmoristinn í deildinni. Við bekkjarsystkini Jóhanns og aðrir skólafélagar söknum hans úr hópnum, söknum hans glaðværu vinarhóta, öruggu þekkingar og staðföstu drenglundar.
Um Ragnar Ragnars sagði Hörður Einarsson m.a.: Sex ára samveru okkar Ragnars gleymi ég aldrei. Glaðværð hans var viðbrugðið og hver sá sem ekki hreifst af tilgerðarlausri og hjartnæmri kátínu hans hlaut að hafa einkennilega skapgerð. Hann var traustur og góður vinur þeirra sem hann lagði lag sitt við, einlægur, hjálpsamur og greiðvikinn við þá sem til hans leituðu.
Bekkjarsystkini þín kveðja þig og félaga þína með djúpum söknuði og trega. Samvistirnar urðu ekki langar en þeim mun minnisstæðari og innilegri.
_ _ _
Við sem hér erum saman komin í dag erum öll tengd hinum látnu með einhverjum hætti. Ég var í nokkur sumur í sveit hjá foreldrum Braga Egilssonar, tengdist fjölskyldunni traustum vinaböndum og kynntist því góða uppeldi sem Bragi hlaut í foreldrahúsum. Jóhann G. Möller var heitbundinn Guðnýju náfrænku minni Einarsdóttur og hafði þeim fæðst dóttirin Jóhanna G. Möller liðlega tveimur mánuðum fyrir flugslysið. Jóhanna er hér með okkur. Þá hafði faðir minn kennt þeim öllum í menntaskólanum og man ég vel hvílíkt áfall það var þegar fréttir bárust af slysinu.
Ýmsir hafa komið að gerð minnisvarðans sem nú verður afhjúpaður og undirbúningi þessarar athafnar. Á engan er hallað þótt sérstaklega sé getið Laufeyjar Egilsdóttur, systur Braga, sem af einstökum dugnaði og frumkvæði leiddi undirbúninginn allan. Margir aðrir ættingjar og vinir allra fjórmenninganna eiga einnig þakkir skildar.
Ingimundur Friðriksson og Laufey Egilsdóttir við minnisvarðann á Öxnadalsheiði á sunnudaginn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson