Þétt setinn bekkur í kveðjumessu Svavars
Fjölmenni mætti til messu í Akureyrarkirkju í dag enda um að ræða kveðjumessu vinsæls sóknarprests til 23 ára. Séra Svavar Alfreð Jónsson lætur nú af störfum og færir sig um set; verður prestur á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Séra Hildur Eir Bolladóttir og séra Jóhanna Gísladóttir þjónuðu fyrir altari í dag en séra Svavar Alfreð prédikaði. Allir þrír organistar kirkjunnar léku í athöfninni, þau Eyþór Ingi Jónsson, Sigrún Magna Þórsteinsdóttir og Þorvaldur Örn Davíðsson, og um söng sáu Kór Akureyrarkirkju og Eldri barnakór kirkjunnar. Þess má geta að séra Svavar Alfreð samdi tvo sálmanna sem fluttir voru í athöfninni.
Ólafur Rúnar Ólafsson, formaður sóknarnefndar Akureyrarkirkju, flutti ávarp í athöfninni þar sem hann þakkaði séra Svavari fyrir samstarfið og í kaffisamsæti, sem kirkjugestum var boðið til í safnaðarheimilinu að lokinni messu, var fráfarandi sóknarprestur leystur út með gjöfum.
Nánar síðar
Séra Svavar Alfreð Jónsson og Ólafur Rúnar Ólafsson, formaður sóknarnefndar, í kaffisamsætinu að messu lokinni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson