Fara í efni
Fréttir

The Viking á Akureyri verður sú stærsta

Ljósmynd: Snæfríður Ingadóttir

Verslunarhúsnæði The Viking í göngugötunni á Akureyri hefur staðið autt síðan í nóvember. Ferðamannaverslunin hefur þó síður en svo lagt upp laupana heldur standa yfir miklar framkvæmdir á húsnæðinu. Fljótlega verður opnuð þar enn stærri og flottari verslun.

The Viking ferðamannaverslunin á Akureyri við Hafnarstræti 104 var stofnuð af athafnamanninum Sigurði Guðmundssyni heitnum sem seldi fyrirtækið til Pennans Eymundssonar árið 2018. Að sögn Guðnýjar Ketilsdóttur, verslunarstjóra Pennans á Akureyri, standa nú yfir gagngerar endurbætur á húsnæðinu enda kominn tími á viðhald og endurskipulagninu. Í rýminu voru alls konar minni kompur og geymslur og segir Guðný að með framkvæmdunum stækki verslunin til muna og verði 400 fm að stærð. Þar með verður The Viking verslunin á Akureyri sú stærsta á landinu en fyrir rekur Penninn Eymundsson nokkrar Viking verslanir á höfuðborgarsvæðinu.

Stefnt að opnun í apríl/maí

Segir Guðný að stefnt sé á að opna um mánaðarmótin apríl-maí. Aðspurð því hvort vöruúrvalið verði það sama og áður, segir Guðný að sem fyrr muni aðaláhersla verslunarinnar vera lögð á vörur fyrir ferðamenn en mögulega bætast aðrar vörur við.

Nýlega opnaði ferðamannaverslunin Icemart verslun í Amorohúsinu. Þá eru fleiri verslanir í miðbænum sem selja vörur fyrir ferðamann – sem munu greinilega hafa úr nógu vöruúrvali að velja í miðbænum í sumar.