Þarf að byggja 10.000 íbúðir á 30-40 árum?
Á síðasta ári fjölgaði landsmönnum um 3% og var það mesta mannfjölgun í landinu í meira en hundrað ár. Á þessu ári sem er að líða eru líkur á að mannfjölgunin verði hart nær sú sama. Hvað þýðir þetta?
Þannig spyr Jón Þorvaldur Heiðarsson, lektor við Háskólann á Akureyri, í athygsliverðri grein sem birtist á Akureyri.net í dag.
Hann segir jafnframt:
„Hvað þýðir það fyrir Ísland að hér verði 3% mannfjölgun ár eftir ár? Í stuttu máli þýðir það að mannfjöldinn tvöfaldast á 23 árum. Til að koma þessum mannfjölda fyrir þyrfti því að byggja jafn mikið á næstu 23 árum og allt húsnæði sem nú er til á Íslandi, en það tók um 100 ár að byggja það.“
Jón Þorvaldur segir ekki beint líklegt að mannfjölgun verði 3% næstu áratugi. „En það verður að teljast líklegt að hún verði 2%. Það þýðir að mannfjöldinn tvöfaldist á 35 árum. Það er með öðrum orðum líklegt að á næstu 35 árum þurfum við að byggja jafn mikið íbúðarhúsnæði og nú er til í landinu. Það er ærið verkefni þótt það sé auðveldara en á 23 árum.“
Greinarhöfundur ber saman landsframleiðslu á mann á Íslandi og ýmsum öðrum löndum, veltir fyrir sér lífskjörum, og líkum á því að íbúum Íslands fjölgi verulega. Hann segir tvöföldun á 30-40 árum líklega þróun sem menn verði að horfast í augu við.
„Við þurfum að gera ráð fyrir að á Akureyri þurfi að byggja 10 þúsund íbúðir á næstu 30-40 árum svo dæmi sé tekið. Í því felst auðvitað tækifæri en líka hætta á klúðri.“
Smellið hér til að lesa grein Jóns Þorvaldar