Þáðu boð ríkisarfans og heimsóttu í höllina
Friðrik Adólfsson, framkvæmdastjóri flugfélagsins Norlandair á Akureyri, þáði í vikunni boð nafna síns, Friðriks krónprins Danmerkur, og drakk með honum kaffi í Amalíuborg í Kaupmannahöfn. Amalíuborg er bústaður dönsku konungsfjölskyldunnar í miðri höfuðborginni. Með í för var Arnar sonur Friðriks, einnig starfsmaður Norlandair.
„Við höfum flogið mikið með Friðrik og fjölskylduna á Grænlandi í gegnum árin, þar á meðal móður hans, Margréti drottningu. Þannig höfum við kynnst þeim,“ segir Friðrik framkvæmdastjóri við Akureyri.net. Yfirleitt hefur þá verið um að ræða heimsóknir til Sirius hundasleðadeildar danska hersins á austurströnd Grænlands. Krónprinsinn, Frederik André Henrik Christian, fór síðast þarna uppeftir í fyrravetur, að sögn nafna hans, framkvæmdastjórans.
Arnar Friðriksson, Friðrik krónprins og Friðrik Adólfsson í Amalíuborg á miðvikudaginn.
„Við vorum þrír hjá honum í höllinni, við feðgarnir og fyrrverandi leiðangursstjóri hjá Air Greenland sem líka er góður vinur prinsins. Þeir kynntust líka í gegnum flugið,“ segir Friðrik.
Það var á miðvikudaginn sem þeir þáðu „mjög huggulegt kaffiboð,“ eins og Friðrik orðar það. „Til stóð að við færum til hans í nóvember þegar ég var á fundum í Kaupmannahöfn en ekkert varð af því. Nú var ég aftur á fundum í borginni.“
Veitingarnar voru góðar, eins og nærri má geta, og það „var mjög gott og gaman að koma í höllina,“ segir Friðrik. „Nafni minn er eðal drengur. Það er sko ekki snobbið í kringum hann; ef fólk hitti Friðrik gæti það varla ímyndað sér að þarna væri ríkisarfinn á ferð – verðandi kóngur; hann er mjög alþýðlegur og þægilegur.“