„Það eiga að vera góð sjúkrahús víðar á landinu“

Ummæli Alexöndru Briem, borgarfulltrúa í Reykjavík, á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í síðustu viku, varðandi framtíð Reykjavíkurflugvallar, féllu í heldur grýttan farveg. Tólf sveitar- og bæjarstjórar af landsbyggðinni, m.a. Ásthildur Sturludóttir á Akureyri, lögðu þar fram tillögu um flugöryggi og framtíð flugvallarins í Vatnsmýrinni, sem enn og aftur er orðinn að þrætuepli milli borgar og landsbyggðar. Tillagan var samþykkt í lok fundarins, en áður en kosið var kvað Alexandra tillöguna vera inngrip í skipulagsvald Reykjavíkur og óbreytt væri hún trúnaðarbrestur milli Reykvíkinga og Sambands íslenskra sveitarfélaga.
„Mér finnst mjög ósanngjarnt að staðsetning sjúkrahússins sé vopnvædd í þessu samhengi,“ sagði Alexandra. Þarna sé byggt upp eina alvöru sjúkrahúsið á landinu og þar með sé það á ábyrgð Reykvíkinga að viðhalda góðri tengingu við alla sjúkrahúsþjónustu allsstaðar að af landinu með staðsetningu flugvallarins. „Auðvitað eigum við bara að krefjast þess að það séu góð sjúkrahús víðar á landinu. Er það ekki eðlilegri krafa?“ sagði Alexandra og uppskar framíköll úr salnum við þessum orðum.
Reykjavíkurflugvöllur.
Biðla til borgar og ríkis að tryggja flugöryggi
En um hvað snýst þessi tillaga? Þau sem skrifa undir hana, hvetja borgina og ríkið til þess að tryggja rekstrarskilyrði Reykjavíkurflugvallar með þeim hætti að flugöryggi sé ekki ógnað. Sérstaklega er mælt gegn frekari þéttingu í nágrenni vallarins, hvorki í formi gróðurs né byggðar, fyrr en raunhæf og skýr lausn um nýjan flugvöll sem uppfylli skilyrði til sjúkraflugs í tengslum við Landsspítalann sé í höfn.
Alexandra Briem, Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur og Einar Þorsteinsson, fyrrverandi borgarstjóri voru ósátt við klausuna sem mælti gegn frekari þéttingu byggðar eða gróðurs í nágrenni flugvallarins og sögðu það vera óeðlilegt að sambandið myndi hvetja til slíkts inngrips í skipulagsvald eins sveitarfélags.
Breytingatillögu bætt við
Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi frá Akureyri, kynnti þá breytingartillögu þar sem klausan um að mælt væri gegn frekari þéttingu byggðar eða gróðurs væri tekin út úr upphaflegu tillögunni. Næstur í pontu var Hjálmar Sveinsson, formaður umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur. Hann kvaðst skilja hagsmuni landsbyggðarinnar en ítrekaði að það væru engar nýjar fréttir að meirihlutinn í borginni vilji flugvöllinn burt og samkvæmt aðalskipulagi borgarinnar til 2040 sé flugvöllurinn farinn árið 2032. „Ég held að það séu allir sammála um að það sé eflaust markmið sem muni ekki nást og við gerum okkur grein fyrir því,“ sagði Hjálmar. Hann minntist aftur á trjágróður og minnti á að ekki sé bara rætt um tré í Öskjuhlíðinni, heldur mögulega tré í Hljómskálagarðinum og jafnvel hávaxin reynitré í einkagörðum í Þingholtunum.
„Stærra mál er þó, að þarna er gríðarlega mikilvægt svæði,“ hélt Hjálmar áfram. „Besta byggingarsvæði í Reykjavík.“ Hjálmar sagði að breytingartillagan væri þó skynsamleg og meirihlutinn í Reykjavík geti sætt sig við hana þó hún samræmist ekki þeirra framtíðarsýn. Hann kvaðst svo vona að tillagan yrði samþykkt á fundinum, það er að segja, breytingartillaga Hildu Jönu.
Sjúkraflugvélar á Reykjavíkurflugvelli. „Aðgengi að lífsbjargandi þjónustu, aðgengi allra landsmanna að Landsspítalanum, trompar allar trjáplöntur,“ sagði Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum á landsþinginu.
Ágreiningur um ábyrgð borgarinnar
Þrætt hefur verið um það hver eigi til dæmis að bera kostnað af því, þegar þarf að höggva tré í Öskjuhlíðinni vegna flugöryggis. Borgarstjórn Reykjavíkur stuðaði marga á landsbyggðinni þegar samþykkt var að fella tré í þessum tilgangi, en bætti við í bókun; Við teljum enn fremur að eðlilegast sé að ríkið standi straum af kostnaði trjáfellingarinnar. Hún er ekki í þágu borgarbúa. Hér má lesa umfjöllun Akureyri.net um þessa bókun og viðbrögð við henni.
Alexandra Briem tók við orðinu á landsþinginu og ítrekaði það að borgin stæði við sitt samkomulag við ríkið um að tryggja Vatnsmýrarflugvelli góðan rekstur þangað til betri staður finnst. „Það eru miklir hagsmunir fyrir borgina að fá að nýta þetta svæði í aðra uppbyggingu,“ sagði Alexandra. „Ég vona að við getum svo lækkað hitann í umræðunni. Ég tók eftir mikilli skautun í umræðunni eftir trjámálið í Öskjuhlíðinni og það var tekið á flugi eins og það væri komið nýtt stríð. Fjölmiðlar blésu málið upp þannig að það liti út eins og við mætum trjágróður meira virði heldur en sjúkraflug, sem er ekki svo.“
Alexandra var þarna komin með pikk í öxlina, um að fara að ljúka máli sínu, en Helgi Kjartansson fundarstjóri hafði óskað eftir því að mælendur væru kjarnyrtir. Hún hélt þó áfram. „Ég vona að þessi aðflugsviðmið breytist ekki bara fyrirvaralaust. Samkvæmt ýtrustu viðmiðum þyrfti jafnvel að lækka Öskjuhlíðina og ég vona að það sé enginn hér sem myndi fara fram á það,“ bætti hún við. Alexandra lýsti yfir áhyggjum þess efnis að kannski þyrfti að takmarka uppbyggingu víðar í nágrenni flugvallarins. Það var svo alveg í lokin á umræðunum, þegar Alexandra fékk eina mínútu til viðbótar til þess að koma skoðunum sínum á framfæri, sem hún fór að minnast á trúnaðarbresti og stinga upp á að óska frekar eftir betri sjúkrahúsum út á landi.
T.v. Alexandra Briem talaði máli borgarstjórnar í Reykjavík á landsþinginu. T.h. Einar Þorsteinsson, fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík var sáttur við breytingartillöguna. Myndir: skjáskot
Aðgengi að lífsbjargandi þjónustu trompar allar trjáplöntur
„Aðgengi að lífsbjargandi þjónustu, aðgengi allra landsmanna að Landsspítalanum, trompar allar trjáplöntur,“ sagði Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, sem kom í pontu eftir að breytingartillagan var kynnt. „Einhver ákvað það, að það ætti að lækna alla á Landspítalanum, en það eru bara sumir sem komast þangað. Það er alveg ótækt.“ Íris er ein af þeim sem kvittaði undir upphaflegu tillöguna, og hún hélt áfram með því að gagnrýna breytingartillögu Hildu Jönu, og sagði að það væri búið að taka úr upphaflegu tillögunni tennurnar. Íris óskaði eftir því að greidd yrðu atkvæði með báðum tillögum í lok umræðunnar.
Skerðing á skipulagsvaldi grafalvarlegt mál
Einar Þorsteinsson, fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík var næstur í pontu og sagði að það væri grafalvarlegt mál að stinga upp á því að Samband íslenskra sveitarfélaga myndi með þessari tillögu óska eftir skerðingu skipulagsvalds eins sveitarfélags. Hann vildi ekki opna þá ormagryfju, eins og hann orðaði það. Einar sagði að honum þætti tillagan skaplegri eftir breytingartillöguna, þar sem setningin um að mæla gegn þéttingu byggðar eða gróðurs væri fjarlægð. „Ég mun styðja þá tillögu,“ sagði Einar, og ítrekaði að lokum að það væri mikilvægt að passa upp á skipulagsvald sveitarfélaganna.
„Það er grafalvarlegt mál að sjúkraflug geti ekki lent á Reykjavíkurflugvelli, og núna ganga keðjusagirnar nánast allan sólarhringinn í Öskjuhlíðinni til þess að laga það,“ bætti Einar við, en þetta var fimmtudaginn 20. mars. Persónulegar sögur sumra mælenda á þinginu höfðu fengið að hljóma, og Einar bætti við að bróðir hans hafi verið sjúkraflutningamaður og hann ætti persónulegar sögur líka, eins og fleiri borgarbúar. „Mér fannst orðalagið mjög óheppilegt, þegar sagt var í bókun borgarstjórnar að felling trjánna í Öskjuhlíð væri ekki í þágu borgarbúa.“
Upphaflega tillagan samþykkt
Eftir að mælendaskrá var lokað, fór kosningin þannig fram, að fundarstjóri bar fyrst upp breytingartillöguna sem Hilda Jana lagði fram. Hún var felld með afdráttarlausum hætti. Þá var upphaflega tillagan frá sveitarstjórunum (og bæjarstjóra) lögð fram og var hún samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.