Fara í efni
Fréttir

TF-GNÁ verður til taks á Akureyri til föstudags

TF-GNÁ og áhöfn þyrlunnar á Akureyrarflugvelli í dag. Ljósmynd: Landhelgisgæslan

Áhöfnin á TF-GNÁ, þyrlu Landhelgisgæslunnar verður til taks á Akureyri fram á föstudag skv. upplýsingum frá Gæslunni. Þyrlusveitin kom til Akureyrar í dag og hefur aðsetur þar ásamt lækni. Viðbragðstími þyrlunnar verður umtalsvert styttri þaðan en frá Reykjavík ef sinna þarf útkalli á Norður- eða Austurlandi.

Snjóflóð féllu í Neskaupstað í vikunni og rýma hefur þurft íbúðarhús í hluta bæjarins. Mikilli úrkomu er spáð á Austfjörðum næsta eina og hálfa sólarhringinn.

„Á Akureyrarflugvelli er góð aðstaða fyrir þyrluna. Þar er unnt að geyma hana inni í flugskýli á milli verkefna,“ segir á vef Landhelgisgæslunnar.

Áhöfnin á TF-EIR verður á sama tíma til taks í Reykjavík.

TF-GNÁ færð inn í flugskýli á Akureyrarflugvelli í dag. Ljósmynd: Landhelgisgæslan