Fara í efni
Fréttir

„Teljum okkur vera að grípa mjög marga“

Heimir Örn Árnason, formaður bæjarráðs Akureyrar, segir að leikskólagjöld mjög margra lækki með nýju kerfi sem tekur gildi í haust. „Fleiri fá afslátt en áður og við teljum okkar vera að grípa mjög marga – við hjálpum fleirum en hingað til,“ segir hann við Akureyri.net.

Kerfið er fyrst og fremst hugsað með hagsmuni barna, lágtekjufólks og starfsmanna í huga, að sögn Heimis.

Hörð gagnrýni

Anna Júlíusdóttir, formaður verkalýðsfélagsins Einingar-Iðju, gagnrýndi hið nýja fyrirkomulag harðlega í grein sem birtist á Akureyri.net í morgun. Hún heldur því fram að breytingarnar hafi veruleg áhrif á fjárhag margra barnafjölskyldna, sérstaklega þeirra tekjulægstu, og krefst þess að ákvörðunin verði endurkoðuð. Hún segir verkalýðsfélagið tilbúið til frekari aðgerða og hvetur alla Akureyringa til að láta í sér heyra.

Tilraunaverkefni

„Þetta er örugglega ekki fullkomið kerfi en með því erum við þó að lækka gjöld mjög margra – til dæmis fá 30-35% foreldra tekjutengdan afslátt af gjöldum, fyrir alls um 1.000 börn,“ segir Heimir Örn, þegar hann var beðinn um að bregðast við gagnrýni formanns Einingar-Iðju. „Við erum líka með systkina afslátt sem er 50% fyrir annað barn, og frítt er fyrir þriðja barn foreldra, sem ekki öll sveitarfélög bjóða upp á.“

Heimir, sem einnig er formaður fræðslu- og lýðheilsuráðs, rifjar upp að tekjutengdur afsláttur af leikskólagjöldum hafi verið tekinn upp í fyrsta skipti um síðustu áramót sem tilraunverkefni. Hann bendir á að tekjuviðmið sé hækkað við breytingarnar sem Anna gagnrýndi í morgun, „og við erum í stöðugu sambandi við leikskólastjóra og hlustum vel eftir því hvort við séum ekki að grípa alla sem þurfa á stuðningi að halda.”

Hvetur Önnu til að ræða við bæjaryfirvöld

Breytingarnar sem Anna gerði að umtalsefni í morgun eru einnig tilraunaverkefni að sögn Heimis, „einmitt til þess að hægt sé að meta hvernig gengur og bæjaryfirvöld muni hlusta vel á allar ábendingar. Ég hvet Önnu að sjálfsögðu til að koma til okkar og ræða sínar hugmyndir.“

Samráð

Anna gagnrýnir að ekkert samráð hafi verið haft við foreldra eða stéttarfélög og fer fram á að við endurskoðun verði haft „raunverulegt samráð við hagsmunaðila.“

Heimir svarar því til að breytingarnar hafi verið unnar í samráði við starfsmenn á fræðslu- og lýðheilsusviði Akureyrarbæjar og starfsmenn leikskóla bæjarins. „Ákvörðun um breytinguna var tekin út frá fyrirliggjandi gögnum og leitast var við að finna bestu lausn fyrir alla hlutaðeigandi.“

Óvægin gagnrýni

Þá gagnrýndi Anna forgangsröðun hjá Akureyrarbæ; mikilvægt sé að bæta íþróttaaðstöðu en það veki spurningar að á sama tíma og auknar byrðar séu lagðar á barnafjölskyldur með hækkun leikskólagjalda séu samþykktir kostnaðarsamir samningar um uppbyggingu íþróttamannvirkja.

„Mér finnst mjög óvægið að blanda saman afsláttarkjörum leikskóla- og frístundagjalda við umræðu um uppbyggingu íþróttamannvirkja,“ sagði Heimir Örn spurður um þetta.