Fara í efni
Fréttir

Tekjulaus trúbador skilaði týndum síma

Hjónin Stefán og Anna frá Þórustöðum 4 í Eyjafjarðarsveit á kanarísku eyjunni La Gomera. Heimilislaus maður fann síma Stefáns á Tenerife og skilaði honum til hans.

Saga Karls Jónssonar um týndan síma í London vakti mikla athygli þegar hún birtist hér á Akureyri.net fyrir nokkrum dögum en þar sagði Karl frá því hvernig hann endurheimti týndan síma í London. En það er víðar gott og heiðarlegt fólk að finna. Sveitungi Karls, Stefán Guðlaugsson frá Þórustöðum 4 í Eyjafjarðarsveit, týndi nýlega síma á Tenerife og endurheimti hann líka hratt og vel.

Þegar blaðamaður Akureyri.net sló á þráðinn til Stefáns voru hann og eiginkonan, Anna Ringsted, enn á Tenerife en hann var fús að segja frá því sem gerðist. Segist hann hafa verið í rólegum göngutúr meðfram ströndinni á stað sem kallast Callao Salvaje þegar síminn hans týndist. Hann hafði tekið símann upp á göngunni og hélt að hann hefði sett símann aftur í tösku sína. Þegar hann kom heim á gististaðinn áttaði hann sig á að síminn var horfinn. Hjónin fóru þá að leita að símanum og hringja í hann. „Það svaraði einhver maður. Hann talaði sæmilega ensku og vildi heilmikið spjalla,” segir Stefán.

Tekjulaus trúbador fann símann

Maðurinn reyndist vera götu- og tónlistarmaður sem ferðast um með gítar og hund. Hann hafði ekkert vesen með að skila símanum og var tilbúinn að hitta Stefán. „Við mæltum okkur mót á bar og hann var svo sem ekkert að biðja um neitt í staðinn, en ég bauð honum bjór og súpu, enda virtist hann ekki eiga neitt og sagðist ekki vera með neinar tekjur nema ef hann spilaði og fólk gæfi honum pening,“ segir Stefán og bætir við að honum hafi svo sem ekkert munað um það enda bara feginn að síminn fannst fljótt og vel.

Það eru náttúrlega margir heimamenn sem hafa það ekki gott hérna, þeir hafa lítið á milli handanna og eru jafnvel heimilislausir og sofa á ströndinni. Þessi maður hefði alveg eins getað tekið símann minn og selt hann. Ef ég rekst aftur á hann hér býð ég honum örugglega aftur upp á bjór.

Stólar alltaf á símann

Stefán segir, eins og sveitungi hans Karl, að atvikið hafi minnt sig á hversu háður hann er orðinn símanum sínum. „Það er ekki bara tækið sjálft sem maður missir, heldur allar bókanir, flugmiðar, tengiliðir, rafræn skilríki og fleira. Maður er alveg hættur að prenta nokkuð út og stólar bara alltaf á símann. Maður áttar sig ekki á því fyrr en svona gerist.“

Stefán og eiginkonan eru annars á heimleið eftir fjögurra mánaða dvöl á Spáni, bæði á meginlandinu og kanarísku eyjunum. Þau hafi margoft komið til Tenerife og hafa góða reynslu af heimamönnum. „En það eru náttúrlega margir heimamenn sem hafa það ekki gott hérna, þeir hafa lítið á milli handanna og eru jafnvel heimilislausir og sofa á ströndinni. Þessi maður hefði alveg eins getað tekið símann minn og selt hann. Ef ég rekst aftur á hann hér býð ég honum örugglega aftur upp á bjór.”