TDK – Hvað er á bak við þessar luktu dyr?
Verksmiðja TDK í Krossanesi var á dögunum opnuð öðrum en starfsmönnum og verktökum í fyrsta skipti þegar haldinn var fjölskyldudagur starfsfólksins. Akureyri.net bauðst að reka inn nefið svo nú geta allir séð á myndum hvað er á bak við hinar luktu dyr verksmiðjunnar.
„Sem eitt af stærstu fyrirtækjunum á Akureyri viljum við auka sýnileika okkar, þar sem líklegast vita ekki allir bæjarbúar hvað TDK gerir dagsdaglega,“ segir Norbert Kardos rekstrarstjóri TDK Foil Iceland við Akureyri.net, um ástæðu þess að haldinn var fjölskyldudagur „þar sem hægt var m.a. að skoða verksmiðjuna og njóta dagsins saman.“ Hann segir stefnt að því að bjóða bæjarbúum öllum að koma í heimsókn síðar meir.
Umhverfisvæn framleiðsla
Álþynnuverksmiðjan í Krossanesi hét upphaflega Becromal en nafninu var breytt árið 2018 í TDK Foil Iceland ehf. Það er dótturfyrirtæki TDK Foil Italy í Mílanó.
„Í framtíðinni viljum við skipuleggja svona dag árlega þar sem bæjarbúar geta komið og kynnst verksmiðju TDK í Krossanesi, sem og hinu alþjóðlega fyrirtæki með starfsemi um allan heim,“ segir Norbert Kardos.
„Við viljum meðal annars sýna fólki hversu umhverfisvæn við erum í framleiðslu á álþynnum, sem eru mikilvægasta hráefnið fyrir þétta, sem finnast í ýmsum heimilistækjum og öðrum rafbúnaði á heimilum fólks. Þéttir í þínu raftæki heima gæti innihaldið álþynnu frá okkur. Í framleiðsluferlinu fara álþynnurnar okkar í gegnum rafefnafræðilegt ferli þar sem við byggjum upp einangrunarlag á yfirborði þeirra, sem er nauðsynlegt fyrir starfsemi þéttisins.“