Fara í efni
Fréttir

Talmeinaþjónusta án greiðsluþátttöku SÍ

Tveir nýútskrifaðir talmeinafræðingar á Akureyri munu á allra næstu dögum auglýsa þjónustu sína gegn fullu gjaldi og án greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands (SÍ). Þetta kemur fram í tilkynningu frá þremur sjálfstætt starfandi talmeinafræðingum í bænum, sem slitið hafa viðræðum við SÍ varðandi svokallaðan fyrirtækjasamning. Hinir nýútskrifuðu talmeinafræðingar verða ekki ráðnir, eins og til stóð, „og ekkert annað í stöðunni en að þeir fari að bjóða þjónustu sína án aðkomu sjúkratrygginga og skapi þannig tvöfalt heilbrigðiskerfi,“ segir í tilkynningunni. 

Viðræður voru neyðarúrræði

„Undirritaðar, sjálfstætt starfandi talmeinafræðingar á Akureyri voru, síðastliðið sumar, í samningaviðræðum við Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) varðandi svokallaðan fyrirtækjasamning. Farið var í þær viðræður þar sem samningur SÍ við einstaka talmeinafræðinga inniheldur tveggja ára starfsreynsluákvæði, sem hamlar því að tveir nýlega útskrifaðir talmeinafræðingar geti hafið störf á Akureyri. Samningaviðræðurnar voru algert neyðarúrræði, þar sem við vildum geta boðið nýtalmeinafræðingunum áframhaldandi vinnu og í leiðinni bætt þjónustuna við núverandi skjólstæðinga og stytt biðlista á svæðinu. Fyrirtækjasamningur inniheldur einnig ákveðnar hömlur hvað varðar starfshlutfall talmeinafræðinga með reynslu og þeirra sem eru reynsluminni og því ógerlegt fyrir einyrkja á landsbyggðinni að gera slíkan samning,“ segir í tilkynningunni.

„Við áttum góða fundi með fulltrúum samninganefndar SÍ en í ljós kom að forsendur fyrir viðræðunum voru ólíkar. Okkur varð ljóst, á orðum heilbrigðisráðherra í fjölmiðlum, að þessar viðræður okkar urðu að bitbeini í baráttu talmeinafræðinga, að fella út úr rammasamningi talmeinafræðinga tveggja ára starfsreynsluákvæði. Eins og fram hefur komið í umræðum undanfarið skýtur þetta tveggja ára starfsreynsluákvæði skökku við. Það skerðir atvinnufrelsi talmeinafræðinga, sem sannarlega hafa fengið starfsleyfi frá Embætti landlæknis, hefur áhrif á nýliðun stéttarinnar og brýtur gegn sjúkratryggðum á Íslandi, með lengingu biðlista. Með því að fá tveggja ára ákvæðinu hnekkt er ekki þar með sagt að það komi holskefla umsókna, því í besta falli væri um að ræða 2-5 umsóknir um aðild að samningi SÍ.“

Ætlum ekki að vera bitbein

„Varðandi samningaviðræður okkar og SÍ, þá hefur þeim nú verið slitið og öllum aðilum gert það ljóst að við ætlum ekki að vera þetta bitbein og standa í vegi fyrir því að fá tveggja ára starfsreynsluákvæðið út úr rammasamningi við einstaka talmeinafræðinga. Það er því ljóst að talmeinafræðingarnir tveir, sem átti að ráða til fyrirtækisins verða ekki ráðnir og ekkert annað í stöðunni en að þeir fari að bjóða þjónustu sína án aðkomu sjúkratrygginga og skapi þannig tvöfalt heilbrigðiskerfi. Verður talmeinaþjónusta þeirra á Norðurlandi því auglýst á næstu dögum.“

Tilkynninguna senda Eyrún Svava Ingvadóttir, Kristín María Gísladóttir og Sonja Magnúsdóttir, sjálfstætt starfandi talmeinafræðingar á Akureyri.