Fréttir
Taktu Sögu Akureyrar í þínar hendur – nú er lag
18.11.2023 kl. 06:00
Evrópska nýtnivikan hefst um helgina og af því tilefni gefst bæjarbúum tækifæri til að eignast 4. og 5. bindi af Sögu Akureyrar sér að kostnaðarlausu.
„Verið er að jafna lagerstöðu á bókaflokknum og ætlar Akureyrarbær því að gefa eintök af síðustu tveimur bindunum sem saman ná yfir árin 1919 til 1962,“ segir í tilkynningu frá bænum. Þetta mikla ritverk Jóns Hjaltasonar sagnfræðings er hið glæsilegasta og uppspretta mikils fróðleiks um sögu höfuðstaðar Norðurlands.
Fram kemur að bækurnar verði hægt að nálgast á Amtsbókasafninu frá mánudegi til föstudags, 20.-26. nóvember. „Verið velkomin á Amtsbókasafnið og takið Sögu Akureyrar í ykkar hendur,“ segir í tilkynningunni.